Stefán Karlsson, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi framhaldsskólakennari á eftirlaunum, segir að heimurinn virðist vera á brún hengiflugs þar sem kjarnorkustríð virðist vera yfirvofandi. Stefán ræðir þessar hugleiðingar í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Ekki er ólíklegt að mörgum hafi brugðið í brún við að lesa upphafið af pistlinum hans sem byrjar á eftirfarandi orðum:
„Ég ætla að hefja umræðuna á tveimur sögum, sem ég hef heyrt, og ég sel þær ekki dýrar en ég keypti þær. Önnur þeirra er höfð eftir Íslendingi sem var eitt sinn staddur á bar í Moskvu,“ segir Stefán og bætir við að þessi Íslendingur hafi hitt mann sem reyndist vera skipstjóri á rússneskum kjarnorkukafbáti.
„Þessi maður spurði landa okkar hvaðan hann væri og þegar hann heyrði svarið sagði hann: „Já, Ísland er í Atlantshafsbandalaginu og þar hafa Bandaríkin hernaðaraðstöðu. Við beinum kjarnorkuflaugum okkar að Reykjavík og ef við lendum í átökum við Vesturveldin byrjum við á því að gjöreyða höfuðborg ykkar þeim til viðvörunar og segjum svo við yfirstjórn NATO; þessa erum við megnugir. Viljið þið meira?“
Stefán lýsir annarri sögu og er höfð að hans sögn eftir Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
„Hann ólst upp við mikla fátækt í Leníngrad. Fjölskylda hans bjó í blokkaríbúð og þar var mikill rottugangur. Eitt sinn var þessi tilvonandi forseti að leika sér að því að smala saman rottunum og króa þær af út í horni. Þá tók ein rottan sig skyndilega út úr hópnum og stökk beint framan í andlitið á honum. Það er haft eftir Pútín að hann hafi lært af þessu atviki að það sé óráðlegt að þrengja svo að öðrum að þeir grípi til óyndisúrræða í örvæntingu sinni.“
Stefán fer svo yfir innrásarstríð Rússa í Úkraínu og segir að átökin í landinu séu mikill harmleikur.
„Þjáningar íbúanna eru ólýsanlegar og eyðileggingin gríðarleg. Rússar bera mikla ábyrgð því engum ætti að vera heimilt að ráðast inn í fullvalda ríki. En ábyrgð Bandaríkjanna og NATO er líka mikil. Það hefði vel mátt koma í veg fyrir hörmungarnar,“ segir Stefán meðal annars í grein sinni sem má lesa í heild sinni hér.