Skjáskot af bréfi frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem staðfest er kæra á hendur Ingólfi Þórarinssyni, hefur verið birt á samfélagsmiðlum. Um er að ræða kæru vegna líkamsárásar á hendur konu.
Skjáskotið, sem var upphaflega birt á Twitter, sýnir bréf frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett þann 4. maí síðastliðinn. Í því er svar embættisins við fyrirspurn frá 3. maí þar sem aðili máls óskar eftir upplýsingum um kæru sem lögð var fram á hendur Ingólfi, betur þekktum undir nafninu Ingó veðurguð, vegna líkamsárásar sem sögð er hafa verið framin árið 2017.
Í bréfinu segir að þann 19. júlí árið 2021 hafi meintur brotaþoli komið til að kæra líkamsárás „sem átti sér stað á Hótel Hlemmur Square fyrir fjórum árum síðan.“ Í bréfinu kemur fram að konan sem lagði fram kæruna hafi verið meðvituð um að brotið væri fyrnt, en hafi þó viljað tilkynna það.
Í útlistun á móttöku kærunnar segir að konan hafi „farið með Ingólfi Þórarinssyni á hótelið og hafi hún byrjað að stunda með honum kynlíf. Skyndilega og upp úr þurru hafi hegðun hans breyst verulega og hafi hann farið að hrækja framan í hana.“ Þá kemur fram að konunni hafi brugðið og spurt Ingólf hvað hann væri að gera.
„Hafi Ingólfur þá kýlt hana einu sinni í andlitið.“
Ingólfur sagði á dögunum eiðsvarinn í dómssal að hann hefði aldrei verið kærður fyrir ofbeldi. Þegar fréttamiðlar tóku að birta nafnlausa frásögn konu sem sagðist sannarlega hafa lagt fram kæru á hendur honum vegna ofbeldis, skrifaði Ingólfur pistil þar sem hann fór mikinn í tengslum við birtingu fréttanna. Þar sagði meðal annars: „Að eg fari svo að kýla konu og hrækja framan í er í besta falli galið en þetta synir hversu langt ákveðnir hópar eru til í að ganga. Hér kemur skýrt fram að ég hef ALDREI verið ákærður fyrir ofbeldisbrot eða kynferðisbrot enda aldrei gert slíkt.“
Með pistlinum birti Ingólfur skjáskot af tölvupósti frá lögmönnum hans þar sem staðhæft er að samkvæmt yfirliti frá Ríkislögreglustjóra hafi engin kæra verið lögð fram á hendur Ingólfi er varðar ofbeldi eða kynferðisbrot. Skjal frá Ríkislögreglustjóra er þó ekki sýnilegt í skjáskotinu, heldur einungis tölvupóstar lögmannanna.
Konan sagðist í samtali við DV á dögunum hvorki treysta sér til að koma fram undir nafni né bera vitni í meiðyrðamálum Ingólfs vegna neikvæðrar umræðu um þolendur og upphrópanir í samfélaginu í kringum mál hans.
„Ég treysti mér ekki til þess að bera vitni í dómsmálinu eða koma fram undir nafni og það er ekki vegna þess að ég hræðist Ingó sjálfan, hann veit hvað gerðist þessa nótt og í framhaldinu, heldur vegna þess hversu óvægin og ljót öll opinber umræða hefur verið. Ég hræðist að það verði gert lítið úr mér eða mér ekki trúað. Ég hef setið og hlustað á vinnufélaga mína verja Ingólf og tala um að konur verði að kæra og að svona mannorðsmorð séu ekki í lagi,“ sagði konan í samtali við DV.
Hún sagði mál sitt hafa verið fyrnt þegar hún kærði, fjórum árum eftir atburðinn, en að hún hafi gefið skýrslu hjá lögreglu og látið henni í té myndir sem hún átti af áverkum sem hún hlaut. Hún segist einnig hafa haft vitni sem hún hefði getað kallað til.
Ekki náðist í Ingólf við vinnslu fréttarinnar.