Ef öllum spurningum er svarað hlutlaust og engin afstaða tekin til neinna mála í kosningaprófi Stundarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningar í Reykjavík kemur í ljós að Framsóknarflokkurinn (B) á best við svarandann. Fast á hæla Framsóknar fylgja Sjálfstæðisflokkurinn (D) og Sósíalistaflokkurinn (J).
Stundin hefur búið til nokkuð ítarlegt og nákvæmt kosningapróf með það fyrir augum að aðstoða óákveðna kjósendur við að staðsetja sig meðal hinna fjölmörgu flokka sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga um gervallt landið nú um miðjan maí. Þar má velja hvert sveitarfélag fyrir sig og fást þá spurningar við hæfi fyrir það svæði. Þeir sem taka prófið merkja bæði við hversu sammála eða ósammála þeir eru ákveðnum stefnumálum er varða þeirra sveitarfélag og svo mikilvægi málsins á skalanum 1 til 5. Einnig er hægt að merkja mál sem lykilatriði, líkt og flokkarnir og frambjóðendurnir sjálfir hafa gert eftir eigin forgangsröðun.
Blaðamaður Mannlífs tók kosningaprófið fyrir Reykjavík og ákvað fyrir forvitnis sakir að svara öllum spurningum hlutlaust og hreyfa ekki við mikilvæginu, sem er sjálfkrafa stillt á 3, í miðið.
Út frá þeim svörum var það Framsóknarflokkurinn (B) sem átti best við blaðamann, með 34 prósent samsvörun. Sjálfstæðisflokkurinn (D) fylgdi fast á hæla Framsóknar með 33 prósent samsvörun og sama má segja um Sósíalistaflokkinn (J). Það verður að teljast athyglisvert að sjá Sjálfstæðisflokk og Sósíalistaflokk hlið við hlið út frá afstöðuleysi svaranda og er það ef til vill í eina skiptið sem þessir flokkar eiga saman að sælda út frá nokkrum greiningum.
Í fjórða sæti er Reykjavík, besta borgin (E) og Flokkur fólksins (F) í því fimmta.
Sá frambjóðandi sem er efstur á blaði kjósanda sem er hlutlaus á öllum sviðum er Kjartan Jónsson, sem skipar 10. sæti á lista Pírata (P) í Reykjavík. Í öðru sæti þess kjósanda er Helgi Ö. Viggósson, sem skipar 5. sæti Ábyrgrar framtíðar (Y) og Geirdís Hanna Kristjánsdóttir, sem situr í 6. sæti á lista Sósíalistaflokksins, í því þriðja.
Jósteinn Þorgrímsson, sem er í 2. sæti fyrir Miðflokkinn (M) í Reykjavík, er í fjórða sæti og í því fimmta Anna Kristín Jensdóttir, sem skiptar 9. sæti á lista Viðreisnar (C) í borginni.