Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-3.1 C
Reykjavik

Réttarhöld í beinni og óbragð í munni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég ætla ekki tala um réttarhöld Johnnys Depp og Amber Heard. Bara alls ekki. Ég ætla ekki að tala um þau. Ekki beinlínis, allavega.

Kannski smá, en það þjónar ákveðnum tilgangi. Tilgangurinn er ekki að taka afstöðu í málinu eða segja mína skoðun á framburði hvers málsaðila fyrir sig. Ég ætla ekki heldur að segja hvað mér þykir trúverðugt og hvað ekki, hvað sjokkerar mig og hvað vekur hjá mér óhug. Ég ætla ekki heldur að segja hvað mér finnst um þau Johnny Depp og Amber Heard, eins og þau koma fyrir sem persónur.

Mér hefði kannski dottið það í hug fyrir einhverjum vikum. Á þeim tíma þegar ég horfði flest kvöld á útdrátt atburða dagsins úr dómsal. Þegar ég las greinar um málið á helstu fréttamiðlum vestan frá, horfði á myndbönd af vitnisburðum á CourtTV og greiningar sálfræðinga, sérfræðinga í líkamstungumáli og lögmanna. Ég fylgdist grannt með málinu, eins og duglegum blaðamanni sæmir. Alveg þangað til ég fékk nóg.

 

Að vita eða ekki vita

Það gerðist eiginlega smám saman; ég fór að finna fyrir einhverju ógeðsbragði í munninum í hvert sinn sem ég settist fyrir framan myndbönd af framburði vitna og málsaðila. Þegar ég bæði heyrði og las yfir ummæli beggja aðila í löngu liðnum rifrildum og átökum. Ég fékk endanlega nóg þegar ég hlustaði á grafískar lýsingar á kynferðislegu ofbeldi sem Heard segir Depp hafa beitt hana. Ég skrifaði heldur ekki neitt um málið, ekki neitt af viti allavega. Ég byrjaði oft; fór yfir ólíkan framburð sálfræðinganna tveggja þegar kemur að greiningum Heard, ólíkar lýsingar Depps og Heard af tilfelli afskorna puttans og myndbönd sem sýna Depp ganga berserksgang, vera óhuggulegan og fá sér um það bil lítra af víni í morgunmat. Ég fór yfir öll ógeðslegu orðin sem höfðu fallið á sínum tíma og voru spiluð aftur fyrir gjörvalla heimsbyggðina í dómsal. Og ég fékk bara endanlegt ógeð, á þessu öllu saman. Líklega allra mest á sjálfri mér, fyrir að eyða frítíma mínum í þessi ömurlegheit. Mannlegan harmleik ókunnugs fólks einhvers staðar úti í heimi.

Ekki misskilja mig, ég hef samúð með þeim sem verða fyrir hvers kyns ofbeldi og þetta fólk er engin undantekning. En ég veit ekki hvernig sambandi þeirra var háttað. Ég veit ekki hver beitti hvern ofbeldi og ég veit ekki hver „byrjaði“. Ég veit ekki hver gerði hugsanlega uppreisn gegn ofbeldi hins og ég veit ekki hvort ofbeldið var algjörlega samstíga á báða bóga. Það að ég láti eins og ég viti það eða taki afstöðu samkvæmt eigin sannfæringu er fjarstæðukennt. Ef stefnan er sú að trúa fólki sem segir sögu sína sem þolendur ofbeldis, þá hlýt ég að trúa þeim báðum.

- Auglýsing -

Það er hins vegar ýmislegt sem ég veit fyrir víst. Ég veit að andlegt ofbeldi getur verið lúmskt, ég veit að það er engin ein leið til þess að takast á við eða bregðast við kynferðisofbeldi og ég veit að neysla og fíknisjúkdómar geta rústað lífi og samböndum fólks, þar sem ekkert stendur eftir nema sviðin jörð.

Ég veit líka að það er ekki tegund okkar (homo sapiens) til framdráttar að horfa á harmleik, baráttu og sorgarsögu fólks eins og hverja aðra afþreyingu. Að skoða hverja æsilegu fyrirsögnina á fætur annarri og kveða upp dóm okkar. Þarna er um að ræða enn einn kima einhvers konar sjúklegrar neyslumenningar, sem við ættum eiginlega að skammast okkar fyrir. Ég skammast mín allavega.

 

- Auglýsing -

Breyskleiki manneskjunnar og dáleitt samfélag

Ég horfði á myndband á dögunum þar sem svipaðar vangaveltur og staðhæfingar komu fram. Í myndbandinu var því sömuleiðis velt upp að hugsanlega væru þau atriði úr málinu sem kæmu verst við mann eða yllu manni hvað mestum óþægindum, einmitt þau atriði í eigin lífi sem þyrfti hvað helst að skoða og vinna í. Það kemur ágætlega heim og saman í mínum huga.

Það er þetta með að taka til í eigin garði… Þótt það sé vissulega mikilvægt að hugsa samfélagið sem heild og vinna að sameiginlegum markmiðum sem skipta máli, þá er okkur sannarlega nauðsynlegt að líta í eigin barm vel og reglulega. Manneskjur eru breyskar. Manneskjur verða fyrir áföllum sem þær læra ef til vill ekki að vinna úr og horfast ekki í augu við, sem getur haft skaðleg áhrif á líf þeirra seinna meir. Manneskjur gera líka ömurlega, óafsakanlega hluti. Við höfum líka byggt samfélag þar sem kerfis- og kynbundið ofbeldi þrífst, þar sem fólk keyrir sig í þrot á orku sem það á ekki til, þar sem allir þurfa að áorka öllu og vera sem mest. Samfélag þar sem nánasti ferðafélagi okkar er lítið raftæki sem geymir alheiminn á tölvutæku formi, þar sem fólk þorir ekki að vera einlægt, opna á áföll, horfast í augu við sjálft sig og tala um tilfinningar sínar.

Alltaf að gera eitthvað og vera eitthvað. Við erum döpur og dáleidd. Við erum fíklar. Við erum hrædd.

 

Sjúkleg neyslumenning

Ég hafði alltaf hugsað neyslumenningu út frá því sem við borðum, klæðum okkur í, ferðumst um á og leggjum okkur til munns. Fjöldaframleiðslu með ódýru vinnuafli svo við getum keypt fatnað og hluti fyrir minna. Allt einnota, öllu fargað. En nú er ég búin að átta mig á því að neyslumenning er svo miklu stærra fyrirbæri. Ég vissi það kannski alveg, en nú skil ég það.

Neyslumenning er til dæmis fólgin í því að horfa á opin réttarhöld, sem er sjónvarpað út um gervalla veröld, þar sem viðkvæmustu, flóknustu og sársaukafyllstu mál tveggja aðila sem elskuðu hvort annað einu sinni, eins og um sjónvarpsþætti sé að ræða. Ekki bíómynd, við höfum auðvitað ekki þolinmæði í slíkt. Raunveruleikasjónvarp á öðru stigi. Og okkur finnst þetta eðlilegt.

Svo er fólkið sem á í hlut rifið sundur og saman í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Meintir geðsjúkdómar notaðir sem vopn til þess að rýra trúverðugleika einstaklings, hinn er sagður geta sjálfum sér um kennt og gögnin því til stuðnings eru æsifréttir, fyrirsagnir og slúður. Og við gleymum því, smátt og smátt, að þetta eru manneskjur. Alvöru manneskjur, með eigin tilfinningar, hugsanir, sorgir og þrár.

Það er hugsanlega einhvers konar markmið að geta fengið veður af þessu máli í framtíðinni og fundið fyrir litlu öðru en samúð.

Hver sem niðurstaðan í þessu verður, þá get ég ekki sagt að ég öfundi kviðdóminn.

Kannski á ég eftir að kíkja aftur á málið eftir einhverja daga eða vikur. Kannski mun ég skrifa um það. Jafnvel greina það. Hver veit? Það væri auðvitað í algjörri þversögn við þennan pistil og þá uppljómun sem ég tel mig hafa orðið fyrir. En ég er bara manneskja.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -