Síðustu tvær vikur hafa auglýsingar Sjálfstæðisflokksins prýtt strætisvagnaskýli í Kópavogi en bæði hafa aðilar innan Vina Kópavogs sem nú bíður sig fram til sveitarstjórnarkosninga, og Pírata sem einnig eru í framboði, bent á að ekki sé allt með felldu hvað varðar téðar auglýsingar.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, birti í gær færslu á Facebook þar sem hún segir auglýsingarnar ólöglegar.
„Sjálfstæðisflokkurinn filmar yfir gegnsæið
Er ekki komið gott af ólögmætum auglýsingum stjórnmálaflokka í Kópavogi?“
Samkvæmt Sigurbjörgu Erlu er eftirfarandi klausa úr samningi Kópavogsbæjar við rekstaraðilann:
„AFA JCD fjármagnar rekstur götugagnanna með sölu auglýsinga báðum megin á annan gafl biðskýlanna.“
Það er nýr aðili tekinn við rekstrinum, Dengsi/Billboard en samningnum var ekki breytt, samkvæmt Sigurbjörgu Erlu.
Þá hafa Vinir Kópavogs einnig bent á þessar auglýsingar en einn þeirra hafði samband við Mannlíf og lét vita að nú væru Sjálfstæðismenn í óðaönn við að taka niður auglýsingarnar. Að sögn aðila innan Vina Kópavogs hafa Akureyringar þann háttinn á að allir flokkar fá sinn tíma á biðskýlunum „en það er gert í samráði við alla. Það er bara þetta sem við hjá Vinum Kópavogs erum að benda á, og við bentum Pírötum á þetta og fleirum, að þetta væri ójafn leikur.“
Mannlíf reyndi að ná tali af Ástu Kristjánsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, án árangurs. Þá hafði Mannlíf einnig samband við Dengsa/Billboard sem annast nú rekstur skýlanna en framkvæmdarstjórinn er frá næstu daga. Tölvupóstur var sendur og er beðið svars.