Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ólafur var einn í þögninni: „Það var svona „hvað er ég að hugsa?“ Hvað var ég að hugsa?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf ræddi við Ólaf Sveinsson, 75 ára sem gekk Jakobsveginn og íhugaði. Hér má lesa brot úr helgarviðtalinu.

Einn í þögninni

Og hann gekk og gekk.

Hver áfanginn af öðrum næstu daga.

„Það sem mér fannst vera mjög merkilegt fyrstu þrjá til fjóra dagana var að vera einn á göngu og vera einn með sjálfum mér.“

Þögn.

Mér fannst þetta róa hugann.

- Auglýsing -

„Það var svona „hvað er ég að hugsa?“ Hvað var ég að hugsa?“. Það var mjög merkilegt að upplifa þetta; ég er búinn að vera að ganga mikið í gegnum árin og oft verið einn en þetta var öðruvísi. Ég var á Jakobsveginum. Það voru kirkjur alls staðar. Litlar kirkjur og stórar kirkjur. Ég fór í flestar kirkjurnar sem ég sá. Ég er ekki mjög trúaður maður en mér fannst mjög gaman að fara í þessar kirkjur; sérstaklega litlu kirkjurnar. Setjast þar niður og vera einn í þögninni. Mér fannst það skemmtilegast. Ég var með það markmið að fara í allar kirkjur sem ég gat komist inn í. Mér fannst bara gott að vera inni í þeim. Stoppa og hvíla mig. Mér fannst þetta róa hugann.“

Ólafur Sveinsson
Í kirkju frá 17. öld.

Ólafur talar aftur um snyrtilega náttstaði. „Ég var mest hissa á hvað náttstaðirnir voru allir fínir. Við vorum kannski átta í herbergi og það var allt svo hreint. Þetta er stærðarinnar bisness þarna á Spáni orðinn og þeir eru að vanda sig. Þarna var ég svo að hitta fólk og tala við fólk og það fannst mér vera skemmtilegt; hitta mismunandi fólk.

Ég spurði af hverju það væri að ganga. Ég var dálítið forvitinn. Og það spurði mig líka. Ég spurði einn sem var að koma frá Frakklandi og búinn að ganga um 1800 kílómetra hvað hann ætlaði að fá út úr þessu. Þá horfði hann á mig og sagði: „Ég veit það ekki. Ég veit það kannski þegar ég kem á leiðarenda.“ Hann var búinn að ganga í marga daga og mér fannst þetta dálítið flott en hann hafði lagt af stað heiman frá sér. Vinur hans var með honum og hann var frá Belgíu. Og hann sagði það sama. Þessir tveir karlar voru voða skemmtilegir. Ég borðaði með þeim og Frakkinn söng og sagði sögur.

- Auglýsing -

Svo var það konan sem kom frá Svíþjóð. Hún var stíf. Mjög stíf. Ég umgekkst hana í þrjá daga og það var áhugavert að sjá hvernig hún breyttist. Hún sagði mér hvers vegna hún væri að ganga Jakobsveginn. Hún var að skilja við manninn sinn og ætlaði að ganga Jakobsveginn og hugsa málið og svo ætluðu þau að hittast í Santiago og sjá hvort þau gætu unnið sig út úr þessu. Það var svo gaman að sjá þessa konu; allar varnirnar voru farnar á tveimur til þremur dögum.“

En ég fékk tár í augun.

Af hverju var Ólafur sjálfur að ganga Jakobsveginn?

„Ég hef nú dálítið velt því fyrir mér af hverju ég var að ganga Jakobsveginn. Ég var dálítið sammála manninum sem sagði að hann vissi það ekki ennþá en að það kæmi í ljós þegar hann kæmi á leiðarenda. Mér fannst ég vilja ganga Jakobsveginn fyrir mig. Ég myndi ekki vilja ganga með nokkrum öðrum heldur en bara mér. Og hugsunin hjá mér var að ég fengi að kynnast mér aðeins betur; hvernig ég væri einn með sjálfum mér, einn í ókunnugu landi og með ókunnugu fólki. Þetta var ekkert trúarlegt. En það er samt svo skrítið; það er kross á einum stað þar sem pílagrímar stansa til að hugleiða og losa sig við stein eða eitthvað táknrænt fyrir þá. Ég var með stein í vasanum sem ég nuddaði á göngu minni og tók hann við hugsunum, áhyggjum og gleði frá mér. Ég losaði mig við steininn þegar ́ég kom að þessum krossi. Ég er ekki grátgjarn maður en ég fékk tár í augun. Ég finn það bara þegar ég tala um þetta. Það var mjög merkileg stund fyrir mig þegar ég losaði mig við steininn. Ég var þarna einn og það kom yfir mig mikil ró og mér fannst þetta vera mjög merkilegt. Ég lét steininn falla og það var tilfinningalegt. Mér fannst þetta vera mjög áhrifamikil stund.“

Ólafur Sveinsson
Steini skilað við kross.

Þögn.

„Og ég var kannski að ganga svona til þess að finna mig.“ Og fann Ólafur sig á Jakobsveginum?

„Já, ég upplifði það. Ég hef aðra sýn á mig en áður. Ég á mjög róstusamt líf,“ segir hann og kímir. „Ég hef gert mikið í lífinu mínu og mér fannst vera ágætt að hugsa um það án þess að vera að dæma mig en að taka ábyrgð á því sem ég hef verið að gera. Svo hef ég gert fullt af góðum hlutum. Ég gekk þessa leið kannski til að kynnast mér.“

Ólafur Sveinsson

 

Krefjandi

Ólafi var farið að vera illt í tánum. Fótunum. „Ég var búinn að fara í apótek og búinn að fá þar eitthvað til að setja á tærnar; einhverja hólka. Og ég var búinn að plástra mig alveg. Það var bara plástur út í gegn með tærnar. Síðasta daginn sem ég gekk ætlaði ég að ganga um 30 kílómetra. Ég fór á veitingastað þegar ég var búinn að ganga um átta kílómetra til að fá mér te og brauð og fór úr skónum sem er ágætt þegar maður stoppar. Ég ætlaði ekki að komast í skóna aftur áður en ég hélt af stað. Ég var með parkodín með mér og át parkodín reglulega á meðan ég gekk sem voru rúmlega 20 kílómetrar. Ég hugsaði með mér að ég yrði að láta lækni skoða þetta. Ég tók leigubíl og fór í þorp þar sem ég vissi að væri læknir og skar hann í tærnar og saumaði svo. Hann sagði að þetta liti illa út og að ég mætti ekki ganga næstu þrjá til fimm dagana. Ég ákvað þá að fresta þessu og fara heim. Ég var kominn með verk í fótinn.“

Ólafur Sveinsson
Læknir í Carrion.

Ólafur hafði gengið tæpa 400 kílómetra á 13 dögum. Til að klára Jakobsveginn átti hann eftir að ganga rúmlega 300 kílómetra. Og það gerði hann í vor. 11 dagar. 325 kílómetrar. Meðalvegalengdin um 30 kílómetrar á dag.

„Ég fann það á seinni helmingnum að mér leið ágætlega með að ganga um 30 kílómetra á dag. Ég lenti reyndar í því að labba 38 kílómetra síðasta daginn.“

Ólafur Sveinsson
Galisía.

Hvernig var ferðin í vor? Hvað upplifði Ólafur?

„Ég upplifði fyrst og fremst það að ég vissi hvað ég var að gera. Og ég var miklu öruggari með mig. Ég hitti svo mikið af skemmtilegu fólki; ég gekk aldrei með því nema kannski stuttan spöl. En fyrst og fremst var fólkið sem ég hitti skemmtilegt og gott. Og það fannst mér standa upp úr.“

Svo nálgaðist Ólafur „markið“ í þessari göngu. Santiago de Compostela. „Ég var búinn að hugsa með mér hvernig þetta yrði þegar ég kæmi þangað. Það var tilfinningaríkt. Allt í einu var ég kominn á endastað og stóð allt í einu fyrir framan þessa stóru og miklu dómkirkju innan um fullt af fólki. Það var önnur stund sem ég varð tilfinninganæmur. Ég fann alveg að það komu tár. Mér fannst þetta vera mjög merkileg stund.“

Jú, Jakobsvegurinn var að baki. Tæplega 800 kílómetrar í tveimur lotum. Hækkunin? Um 13 kílómetrar samanlagt.

Ég er bara allt í lagi.

Hvað hefur það gefið Ólafi að hafa gengið Jakobsveginn?

„Það var mjög krefjandi að vera einn með sjálfum sér. Að geta þolað mig í göngu í tæpan mánuð í allt. Að vera með mér og vera sáttur við mig; það sem ég fékk mest út úr þessu er að ég er bara ágætur. Ég er bara allt í lagi. Mér finnst það vera mikils virði að vera bara allt í lagi. Það sem ég fékk mest út úr þessu er að ég er sáttur með mig.

Þessi ganga hefur að einhverju leyti breytt mér. Ég upplifi það.“

Ólafur Sveinsson
Í Santiago de Compostela.

 

Þunglyndið

Ólafur talaði um róstusamt líf. Stundum erfitt. Það má líka þessu við göngu. Fjallgöngu. Blíðviðri og veðurofsa.

Hann var unglingur þegar hann fór að finna fyrir þunglyndiseinkennum.

„Allt í einu var ég undir sæng, lokaði mig af og vildi ekki tala við neinn og skildi ekki af hverju þetta var svona. Svo rjátlaðist þetta af og ég fór að koma mér af stað en svo kom þetta aftur. Ég vissi aldrei af hverju. Þetta var svona í mörg ár.

Svo uppgötvaði ég það að ég gat drukkið mig í gegnum þetta. Það var ágætt; ég gat farið á einhvern stað og setið einn úti í horni og drukkið mig í gegnum þetta. Ég vissi að þetta var ekki eðlilegt. Eitt af einkennum mínum var að ég vildi ekki tala við fólk og svaraði ekki símanum.“

Það kom að því að Ólafi var bent á að fara til geðlæknis sem sagði að hann þyrfti að hreyfa sig og vera innan um fólk. Það gerði Ólafur og það kom að því að hann áttaði sig á því að

þetta væri sjúkdómur. Þunglyndi. „Geðlæknirinn sagði að ég ætti að hætta að gera þetta að leyndarmáli og ég hef bara talað um þetta síðan þá.“

Ég lagast ekki á einum degi.

Göngur hjálpa mikið en það er löngu búið að sanna að göngur eru góðar fyrir líkama og sál.

„Þegar ég er í svona kasti og er í miklu svartnætti þá hefur það hjálpað mér að fara í skóna mína og fara út. Og svo bara geng ég. Og ég veit að göngur hafa áhrif á alls konar starfsemi í líkamanum. Ég er þá bara að ganga til þess að fá efni inn í líkamann; bara til að heilinn í mér róist og ég finn það alveg þegar ég er að komast upp úr þessu hvað hreyfingin gerir mér gott. Ég lagast ekki á einum degi. Mér finnst oft vera erfiðast að fara í skóna og fara út. Þess vegna er ég svo heppinn að ég er stundum með Kasper, vin minn, með mér og þá hjálpar hann mér,“ segir Ólafur en Kaspser er labradorhundur dóttur hans og tengdasonar. „Göngur hafa líka áhrif á hjartsláttinn, svefninn og mataræðið. Þær hafa áhrif á allt.“

Ólafur segir að þegar hann finnur fyrir þunglyndiseinkennum og er í þessu svartnætti þá hafi hann litla trú á að hann geti gert þetta; geti farið út að ganga. „Maður liggur bara undir sænginni og það er ekkert fram undan. Það er ekkert að gerast. Maður horfir á sjónvarpið og vill ekki hitta fólk. Og vill ekki svara í símann. Og fyrsta hugsunin er ekki að fara út og hreyfa sig. Ég er hins vegar búinn að vera svo lengi með þennan sjúkdóm að ég er búinn að læra inn á hann og það er tvennt sem ég þarf að gera. Það er annars vegar að segja öllum þeim sem eru nálægt mér að nú líði mér illa og hins vegar að koma sér út. Þá kemur þetta dópamín í líkamann.

Það er viðurkennt af öllum að hreyfing er það sem skiptir höfuðmáli. Aðalmáli.“

 

HÉR er hægt að lesa viðtalið í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -