Payton Gendron, átján ára vopnaður hvítur karlmaður skaut í gær tíu til bana í Buffalo í New York-ríki í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn var þjóðernissinnaður-hægri öfgamaður og sýndi frá árásinni beint á samfélagsmiðlum sínum.
Fjölmiðlar vestanhafs segja árásarmanninn vera frá bænum Conklin í New York-ríki og hafi verið ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði án möguleika á tryggingu.
Ofbeldi hvítra þjóðernissinna
Árásarmaðurinn var klæddur bæði brynju og hjálm og var síðar handtekinn af lögreglu.
Auk hinna tíu sem létust eru þrír slasaðir. Ellefu fórnalambanna voru svört á hörund.
Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu þakkaði Joe Biden Bandaríkjaforseti lögreglu og viðbragðsaðilum fyrir starf sitt.
„Öll hryðjuverk heima fyrir, þeirra á meðal allt ofbeldi sem framið er í nafni andstyggilegrar hugmyndafræði hvítra þjóðernissinna fer gegn öllu því sem við stöndum fyrir í Bandaríkjunum,“ sagði forsetinn.
Skothríð í matvöruverslun
Árásarmaðurinn skaut fjóra á bílastæði við matvöruverslun, þar af þrjá til bana, áður en hann fór síðan inn í verslunina og hélt skothríðinni áfram.
Á meðal þeirra sem voru skotnir til bana í versluninni var fyrrverandi lögreglumaður, sem sinnti starfi vopnaðs varðar í matvörubúðinni. Samkvæmt lögreglu skaut vörðurinn nokkrum sinnum á árásarmanninn án árangurs áður en hann var skotinn til bana.
Fram kom í máli lögreglu á blaðamannafundi í Buffalo á laugardagskvöld að árásarmaðurinn hafi beint byssu sinni að sjálfum sér þegar lögregla kom á vettvang, en lögreglu tókst síðan að tala hann af því og hann gaf sig síðan á vald lögreglu.
Rannsakað sem hatursglæpur
Stephen Belongia, fulltrúi bandarísku Alríkislögreglunnar á blaðamannafundinum, sagði við fjölmiðla að árásin væri rannsökuð sem hatursglæpur.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að árásarmaðurinn hafi skrifað ítarlega „stefnulýsingu“ og birt á netinu skömmu fyrir árásina. Í meintum texta segir árásarmaðurinn frá áætlun sinni sem var knúin af kynþáttarfordómum.
Árásarmaðurinn sagðist meðal annars vera „innblásinn“ af ofbeldisverkum hvítra hægri-öfgasinna, m.a. hryðjuverkunum í Christchurch á Nýja-Sjálandi árið 2019, þar sem 51 múslimi lést.
Maðurinn beitti hálf-sjálfvirku skotvopni við árásina sem hann hafði skrifað á slagorð hvítra hægri-öfgasinna.