Jarðskjálftavirkni hefur haldið áfram í dag á Reykjanesskaga, en skjálftahrina hófst við Eldvörp um kl. 11.30 og kl. 14.17 varð skjálfti af stærð 4,2 sem fannst á Reykjanesskaga og á höfuðborgarsvæðinu.
Skjálfti 4,3 að stærð varð klukkan 17.38 og fáeinum sekúndum áður var skjálfti um 4 að stærð.
Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur segir í samtali við MBL að land hafi risið í byrjun maí við Svartsengi, en skjálftavirkni umhverfis svæðið hefur verið mikil undanfarið.
Halldór segir ýmsar mögulegar atburðarrásir koma til greina varðandi framhaldið:
„Það eru ýmsar mögulegar atburðarásir. Það hafa margir talað um að við séum mögulega að fara inn í goshrinu sem getur varað þess vegna næstu 200, 300 árin af og til. Það eru allar sviðsmyndir undir.“
Gosið við Fagradalsfjall hafi þá verið upphafið að þessari goshrinu?
„Við vitum ekki fyrr en upp er staðið hvort að það hafi verið upphafið að einhverju eða ekki. En það er ýmislegt sem bendir til þess. Það hafa verið ákveðin umbrot í fleiri eldstöðvakerfum en bara Fagradalsfjalli; landrisið sem er núna við Svartsengi eða Þorbjörn er fjórða slíka landrisið síðan 2020. Svo var líka landris í Krýsuvík 2020 og svo hafa líka verið einhverjar óljósar hreyfingar lengra út á Reykjanesinu. Það eru mörg kerfi á Reykjanesskaganum sem eru að upplifa einhverjar færslur sem gætu tengst kvikuhreyfingum. En það er ómögulegt að segja hvenær og hvar eitthvað gæti komið upp,“ segir Halldór að lokum.