Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2 C
Reykjavik

Hildur barðist upp á líf og dauða: „Ég reyndi að hafa stjórn á drykkjunni eftir að ég varð mamma“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég gafst upp árið 2017 eftir að ég var búin að reyna að hafa stjórn á drykkjunni. Ég notaði bjór sem kvíðastillandi efni. Kvíðinn varð enn þá meiri og ef ég fór að djamma þá fór ég í „black out“; það eiginlega gerðist alltaf,“ segir Hildur Hermannsdóttir listamaður sem hefur barist vipð að koma lífi sínu á réttan kljöl undandfarin ár. Eftir erfiðleikana hefur rofað til. Hún sem opnaði sýningu sína í Núllinu við Bankastræti í kvöld. Hún er með BA-próf í grafískri hönnun og próf í myndskreytingu (illustration).„Í þessari sýningu, „Guð minn góður!“, er ég að skoða hvað ég hef notað í leit minni að æðri mætti/Guði, friði og hamingjunni. Ég hef leitað í fólk, hluti og staði og oft trúað því að bara ef ég hefði „þetta“ eða hefði ást/virðingu frá „þessum“ aðila, eða væri einhvers staðar annars staðar en þar sem ég er, þá myndi mér loksins líða vel og finna hamingjuna, friðinn eða Guð. En það er mikil mótsögn, af því að maður getur aðeins fundið hamingjuna, friðinn og já, Guð, innra með sjálfum sér akkúrat þar sem maður er í núinu. Ég legg áherslu á húmor og hef gaman af öllum mistökunum sem ég hef gert í þessari leit. Ég er með 17 málverk á sýningunni sem eru máluð með blandaðri tækni á viðarplötur. Svo er ég með tvö vídeóverk,“ segir Hildur.

Hvers vegna Núllið?

„Mér var bent á að Núllið væri með „Open call“. Maður gat sent fyrirspurn um að vera með sýningu og ég sló til. Ég var með mína fyrstu einkamyndlistarsýningu í nóvember í Ósló þar sem ég er búsett og mér fannst það bara vera eðlilegt að vera með næstu sýningu í heimalandinu. Núllið er líka mjög töff rými, hrátt og þar er „underground-fílingur“ sem passar vel við mína list þar sem hún er frekar mikið pönk.“

Hildur Hermannsdóttir

Byrjaði að drekka 12 ára

Líf Hildar hefur ekki verið dans á rósum. Hún fór að finna fyrir vanlíðan og þunglyndi í æsku sem hún deyfði síðar með vímuefnum. Hún greindist með ADHD í fyrra, en ADHD hefur haft mikil áhrif á líf hennar. „Ég var alltaf að týna öllu þegar ég var stelpa. Við bjuggum rétt hjá skólanum og það hefði tekið mig um fimm mínútur að ganga heim, en það tók mig stundum jafnvel um klukkutíma að labba heim af því að ég var alltaf að gleyma mér og var í eigin heimi. Ég man eftir að hafa setið í skólanum og bara horft út um gluggann og vissi ekkert hvað var í gangi í skólastofunni. Ég átti erfitt með einbeitingu, það var erfitt að fylgjast með þegar talað var við mig og ég var alltaf komin eitthvert annað. Ég var alltaf einhvern veginn ekki alveg tengd.“

- Auglýsing -

Hún er með talnalesblindu sem hafði áhrif á námið og sjálfsálitið. „Ég hélt að það væri eitthvað að mér og ég var alltaf að heyra að ég væri ekki að standa mig nógu vel. Ég var mjög ung þegar það stimplaðist inn í mig að mér fannst ég ekki vera nógu góð. Ég var samt að gera mitt besta, en það var ekki nógu gott. Maður brotnaði niður og á endanum gaf ég bara puttann í menntakerfið. Þetta var ömurlegt og ekki fyrir mig.“ 10 ára var hún farin að íhuga að svipta sig lífi.

Ég var 14 eða 15 ára þegar ég prófaði að reykja kannabis í fyrsta skipti.

12 ára fékk hún sér fyrsta sopann og hún fór að reykja sama ár. „Loksins leið mér ekki illa. Ég gat náð að slökkva á öllum þessum vondu tilfinningum og gleyma mér í smástund og mér fannst það vera geggjað. Þetta var líka ógeðslega spennandi, örugglega af því að þetta var bannað, en þá var það extra spennandi. Ég var eftir þetta mikið að reyna að detta í það og stelast til að reykja. Ég var 14 eða 15 ára þegar ég prófaði að reykja kannabis í fyrsta skipti og 16 eða 17 ára þegar ég prófaði í fyrsta skipti örvandi efni. Ég fór út í neyslu af því að ég var með brotið sjálfsálit og ég var að reyna einhvern veginn að komast í gegnum þetta líf. Deyfa mig af því að mér leið ömurlega. Ég fór í algjöran „rebel“-gír; kannski af því að ég fann mig ekki í skóla og námi. Ég var líka að stela úr búðum. Þetta var einhver spennufíkn býst ég við. Mikill óheiðarleiki getur fylgt aktívum alkóhólisma og maður var ekkert mikið að pæla í afleiðingum gjörða sinna og var bara óheiðarlegur alls staðar í lífinu.

Mér fannst ég vera öðruvísi en aðrir, sérstaklega á unglingsárunum, og varð algjör vandræðaunglingur. Ég var algert fatafrík, var byrjuð að lita á mér hárið, var svolítill pönkari í mér og algjör „rebel“. Ég dýrkaði að klæða mig upp; klæða mig í fríkuð föt. Ég endaði uppi á geðdeild 19 ára og þaðan var ég send beint í meðferð á Teigum. Ég var edrú í níu mánuði eftir það. Ég passaði mig á fíkniefnum eftir að ég datt síðan í það; ég var alltaf svolítið hrædd eftir þetta, hrædd við að missa vitið endanlega.“

- Auglýsing -

Hún hóf hönnunarnám við Iðnskólann í Reykjavík þegar hún var um tvítugt en hætti áður en fyrstu önninni var lokið. „Ég var aftur komin í neyslu og hélst ekkert í náminu.“

Hildur Hermannsdóttir

Ofskynjunarlyf

Hildur hafði alltaf gaman af að teikna og árið 2007, þegar hún var 25 ára, sótti hún um að komast í nám við Listaháskóla Íslands og þar hóf hún nám 25 ára gömul árið 2007. Hún útskrifaðist svo með BA-próf í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2010.

Það var erfitt að fá vinnu á þessum tíma. Hildur segir að hún og kærasti hennar hafi verið orðin svolítið leið á Reykjavík og langað til að prófa eitthvað nýtt. „Vinkona mín í Ósló sagðist geta reddað mér vinnu þar,“ segir Hildur og fluttu þau til Óslóar árið 2011 þar sem Hildur fór að vinna sem þjónn og barþjónn.

Lífið gekk sinn vanagang og Hildur og kærasti hennar eignuðust tvær dætur. „Ég virkilega reyndi að hafa stjórn á drykkjunni eftir að ég varð mamma; í fyrsta sinn af einhverri alvöru. Ég komst að því að ég átti mjög erfitt með það, fyrir utan það að báðar stelpurnar voru með magakveisu og grétu dögum saman í marga mánuði. Eldri stelpan í þrjá mánuði og sú yngri í fimm mánuði. Ég fékk fæðingarþunglyndi og varð virkilega veik.“ Hildur hefur verið á þunglyndislyfjum frá árinu 2016, en þá var yngri dóttirin eins árs.

Hildur hóf svo árið 2016 nám í myndskreytingu (illustration) við Høyskolen Kristiania og útskrifaðist árið 2018 og fékk verðlaun, Best innan fagsins. „Þetta eru verðlaun sem kallast Gullspíran.“

Ég reyndi að forðast að fara á djammið, en ef það gerðist þá endaði það alltaf með ósköpum.

Og hún fékk sér í glas. Of oft. Of mikið. Og andleg vanlíðan jókst. Þunglyndi og kvíði.

„Þetta var svo hræðilegt. Ég reyndi að forðast að fara á djammið, en ef það gerðist þá endaði það alltaf með ósköpum. Ég gat ekki meira árið 2017 og ákvað að þiggja hjálp og var edrú í þrjú ár, en svo féll ég í hittifyrra. Ég prófaði þá hugbreytandi lyf – ofskynjunarlyf; gerði einhverja tilraun og það var kornið sem fyllti mælinn, sem varð til þess að öll spilaborg mín hrundi. Þetta var mjög hættuleg tilraun sem hefði getað endað rosalega illa.“

Hún fór svo á geðdeild í hittifyrra. „Það sem bjargaði mér var að þiggja alla þá hjálp sem bauðst: Sálfræðingar, lyf, AA-samtökin og 12-spora samtök. Bara allt. Tala við fólk. Tala við vini. Tala við vini sem hafa lent í svipuðum hlutum. Vini sem hafa dílað við andleg veikindi. Það hjálpaði mér mjög mikið.“

Hildur Hermannsdóttir

Drónar og vélmenni

Hildur og barnsfaðir hennar skildu í fyrravor og hún segist hafa einbeitt sér að því að vinna í sjálfri sér andlega og einbeita sér að listsköpun sinni. „Ég byrjaði í nýrri vinnu í desember sem grafískur hönnuður og markaðsfræðingur hjá sprotafyritæki sem heitir Makekit, sem framleiðir dróna og vélmenni fyrir börn. Fyrirtækið einblínir á að kenna börnum að kóða og byggja dróna og vélmenni sjálf. Ég gekk í gegnum mjög erfitt tímabil andlega fyrir stuttu og þurfti að horfa inn á við með mikla hreinskilni að leiðarljósi og fór að sjá hvernig ég hef leitað í utanaðkomandi aðstæður að innri friði og þaðan kom lykilinn að efni sýningarinnar.“

Hvað er fram undan – bæði í lífi og starfi?

„Ég held áfram í nýju vinnunni minni og að skapa list þegar tími gefst, en ég er einstæð, tveggja barna móðir þar sem ég er ein með tvær dætur mínar aðra hverja viku, svo það er nóg að gera. Ég stefni á að koma til Íslands í sumar og njóta sumarsins með fjölskyldu og vinum. Annars er líf mitt mjög opið og ég er bara spennt fyrir því að sjá hvað gerist næst. Lífið er alltaf að koma á óvart.“

Dróna- og vélmennatækni er spennandi og skapandi.

Hverjir eru draumarnir varðandi framtíðina?

„Draumur minn er að lifa af listinni. Ég veit að það er ekki auðvelt verkefni, en ég trúi því að þegar maður fylgir hjartanu þá sé maður að gera rétt og auðvitað þegar maður er að gera það sem maður elskar, þá verður það skemmtilegt þótt það sé ekki alltaf auðvelt. Kannski get ég blandað saman listinni og vinnunni. Dróna- og vélmennatækni er spennandi og skapandi og það gæti orðið girnileg list að blanda þessu saman. Ég er mjög opin fyrir breytingum og tek öllum tækifærum opnum örmum. Ég er mjög spennt að sýna á Íslandi og vona að ég verði með aðra sýningu hér sem allra fyrst. Svo er markmiðið að halda áfram, vera jákvæð, þakklát og leyfa ljósinu að skína úr hjartanu mínu hvert sem það vill fara.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -