Sumir baka ótalmargar sortir fyrir jólin og keppast við að fylla allar áldollur af margvíslegu bökuðu góðgæti á meðan aðrir eiga eina til tvær uppáhaldsuppskriftir sem þykja ómissandi. Hvort sem kökurnar eru bornar fram með stöku mjólkurglasi fyrir börnin eða á fallegum bökkum í kaffiboðinu er eitt víst, jólin væru fátæklegri án þessara ljúfu bita.
Hér kemur ein skotheld uppskrift að gómsætum smákökum.
Hafrasmákökur með súkkulaði
u.þ.b. 25 smákökur
150 g hveiti
1 tsk. kanill
1 ½ tsk. matarsódi
1 tsk. salt
160 g ósaltað smjör við stofuhita
140 g ljós púðursykur
70 g sykur
1 stórt egg
1 tsk. vanilludropar
150 g tröllahafrar
150 g súkkulaði, saxað og sigtað. Gott er að nota blöndu af dökku súkkulaði og mjólkursúkkulaði.
Hrærið hveiti, kanil, matarsóda og salt saman í skál. Hrærið smjörið í hrærivélinni í nokkrar mínútur, eða þar til smjörið verður mjúkt og slétt.
Hrærið ljósa púðursykurinn og sykurinn saman við þar til það verður létt og kremkennt. Bætið egginu og vanilludropunum út í og hrærið á hægum hraða í 15-30 sekúndur eða þar til allt hefur rétt náð að blandast saman.
Hrærið þurrefnin saman við í tveimur hollum og hrærið þar til allt hefur rétt náð að blandast saman. Setjið hafrana og saxaða súkkulaðið saman við og notið sleikju til að blanda því saman við deigið.
Geymið deigið inni í ísskáp í hálftíma. Hitið ofninn í 160°C. Leggið bökunarpappír ofan á ofnplötu. Takið rúmlega eina matskeið af deigi og rúllið á milli handanna þar til það er orðið að litlum bolta og leggið síðan á bökunarplötuna.
Bakið í 18-20 mínútur eða þar til kökurnar gyllast á endunum. Látið smákökurnar kólna á grind.
Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmyndari / Hákon Davíð Björnsson