„Við fórum í tæknifrjóvgun hérlendis á árunum 2008-2010. Þetta var tveggja og hálfs árs ferli sem endaði nú með engu barni, en engu að síður erum við hamingjusöm og létum okkur það að góðu verða. Nýlega fengum við ábendingar um að eitthvað hefði farið úrskeiðis í þessari meðferð þarna fyrir löngu síðan og í kjölfar þeirra ábendinga höfum við aflað okkur gagna,“ segja hjónin Hlédís Sveinsdóttir arkitekt og Gunnar Árnason viðskiptafræðíngur sem á sínum tíma reyndu með aðstoð Art Medica að eignast barn.
Hlédís fór í eggheimtur og voru tekin úr henni 50 egg. Fósturvísar urðu 29 og voru 10 þeirra notaðir í meðferð hjónanna. Meðferðir skiluðu ekki árangri. Í fyrra tjáði ókunnug manneskja Gunnari úti á götu að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað á þeim tíma þegar á meðferðunum stóð og að framið hefði verið lögbrot. Þegar hjónin skoðuðu málið kom í ljós að 19 fósturvísar höfðu horfið auk þess sem fjöldi manns hafði skoðað sjúkraskrár hjónanna sem geymdar eru á Landspítalanum, en samkvæmt lögum mega einungis læknar sem sinna fólki skoða sjúkraskrár fólks.
„Það er rökstuddur grunur núna um að það hafi orðið til börn, okkar börn, úr þessum fósturvísum sem gufuðu upp í meðferðinni og engin viðhlítandi skýring hefur fengist á,“ segir Gunnar. Framundan er dómsmál.
Viðtalið er einnig að finna á nýútkomnu Mannlífi sem dreift er ókeypis í Bónus, Hagkaup og N1.