Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti alls 65 málum frá því klukkan sjö í gærkvöldi til klukkan fimm í morgunsárið. Byrjaði kvöldið á útkalli í Hlíðarnar en þar hafði karlmaður farið inn í fjölbýlishús. Maðurinn var í annarlegu ástandi og hafði reynt að stela úr sameiginlegu þvottahúsi. Var maðurinn á bak og burt þegar lögreglu bar að garði. Seinna um kvöldið barst löreglu tilkynning um slagsmál í Hlíðunum og er málið í rannsókn.
Brotist var inn í íbúð í hverfi 108 í gærkvöldi. Tveir aðilar voru handteknir á vettvangi og gistu bak við lás og slá.
Athugull Hafnfirðingur hafði samband við lögreglu í gærkvöldi vegan grunsamlegra mannaferða. Voru mennirnir að kíkja inn um glugga og skoða inn í bifeiðar en létu sig hverfa áður en lögreglu bar að garði. Þá barst lögreglu tilkynning um ökumann sem hafði barn í fangi sér undir stýri. Þrátt fyrir leit lögreglu fannst bifreiðin ekki.
Fyrr um kvöldið barst tilkynning um karlmann í annarlegu ástandi, liggjandi í garði. Þegar lögregla kom á vettvang kvaðst aðilinn hafa verið að sóla sig og gekk sína leið. Hvorki meira né minna en fimm ökumenn voru stöðvaðir í miðbænum í gærkvöldi og í nótt. Allir eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis en var einn þeirra sviptur ökuréttindum.