Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium er engin önnur en grasalæknirinn Ingeborg Andersen. Ingeborg lærði vestrænar grasalækningar við University of Westminster í London.
Vildi að hún yrði tekin alvarlega
Hún segist hafa valið skólann því hún hafi viljað að hún væri tekin alvarlega. Í því samhengi nefnir hún að hægt sé að læra grasalækningar á stuttum helgarnámskeiðum.
„Þetta var eiginlega eina alvöru námið sem ég gat fundið því mér langaði að vera tekin alvarlega. Þú getur kallað þig graasalækni ef þú hefur farið á nokkur helgarnámskeið.“
Gunnar spurði Ingeborg hver munurinn væri á vestrænum og austrænum grasalækningum. Ingiborg sagði að jurtaúrvalið sé og hafi alltaf verið misjafnt hvað það varðar en að viss samruni sé að eiga sér stað, sífelt meira og meira. Heimurinn sé að minnka og vestrænir grasalæknar farnir að vinna meira með jurtir úr austrinu.
Ingeborg kemur úr fjölskyldu af læknum, afi hennar og pabbi eru læknar og mamma hennar hjúkrunarfræðingur. Það hafi alltaf legið fyrir að hún skuli einnig verða læknir en þegar nær dró fann hún að henni fannst námið ekki bara þurrt heldur líka erfitt yfirferðar sökum viss áhugaleysis um námsefnið.
Máttur grasalækninga
Eftir að Ingeborg hafði glímt við króníska sýkingu í um hálft ár fann hún mátt grasalækninganna en hún var orðin ónæm fyrir öllum sýklalyfjum sem hún prófaði og það var svo í raun pabbi hennar, læknirinn sem ráðlagði henni að fara til grasalæknis til að finna bót meina sinna.
Ingeborg sagði í viðtalinu að grasalækningar hafi hér áður fyrr talist sem almenn viska tengd heilsu og líðan, fólk hafi verið í nánari tengingum við náttúruna og máttinn sem í henni býr. Hún vill meina að þessi tenging og vitneskja sé smátt og smátt að tapast.
„Við erum að reyna að útrýma náttúrunni úr umhverfinu okkar og gleymum að við erum sjálf náttúran. Mér finnst það alveg vera gefið að ef þú ætlar að lifa án náttúrunnar þá getur þú ekki lifað heilbrigðu lífi. Við erum ekki að gefa líkamanum rými til að lækna sig sjálfan ef við erum í streituástandi því það er ekki ástand þar sem líkaminn er að setja sig í forgang við að laga sig.“
Íslensk náttúra nóg
Hún segir að í íslenskri náttúru sé að finna allar þær plöntur og öll þau grös sem maðurinn þarf til almennra heilsubóta, það eina sem þarf er að fá sér göngutúr og ná í það. Segist hún alltaf meira og meira verða vör við vissa vitundarvakningu hvað varðar grasalækningar. „Við höfum notað jurtir frá því að við vorum apar og fyrir það örugglega og ef þú fylgist með dýrunum þá vita þau nákvæmlega hvaða jurtir þau þurfa þegar þau eru veik og mikið sem við höfum lært frá þeim.”
Hægt er að horfa á allt viðtalið hér fyrir neðan og mæli Mannlíf eindregið með því enda mjög áhugavert og skemmtilegt viðtal.