Afmælisbarn dagsins er landsliðsmarkmaðurinn Björgvin Páll Gústavsson en hann er 37 ára.
Björgvin Páll hefur verið afar vinsæll meðal þjóðarinnar en hann var í handboltalandsliðinu sem vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Um þessar mundir stendur hann svo í markinu hjá Val sem keppir nú til úrslita í úrvalsdeildinni. Þá hefur hann einnig verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni undanfarin ár en fyrir nokkrum árum kom út ævisaga Björgvins, Án Filters sem Sölvi Tryggvason ritaði.
Í samtali við Mannlíf sagði Björgvin Páll daginn í dag frekar einfaldan. „Ég ætla bara að gera mig sætan og fara í klippingu. Svo ætla ég að borða með konunni minni í hádeginu og hitta svo strákana á handboltaæfingu. Einfaldur dagur og svo eyði ég kvöldinu með fjölskyldunni.“ En hvað er framundan hjá Björgvini Páli? „Það er bara handboltinn á milljón. Ég er einmitt að fara að keppa í úrslitunum á morgun, þriðji leikurinn gegn ÍBV.“
Mannlíf óskar Björgvini Páli innilega til lukku með daginn.