Í Sjóaranum að þessu sinni ræðir Reynir Traustason við skipstjórann Sigurgeir Pétursson frá Húsavík. Hann stjórnar einum af stærstu togurum heims, með 95 manns í áhöfn.
Sigurgeir hefur marga fjöruna sopið og lent í ýmsu við störf sín um heimsins höf. Mikil mildi var að enginn úr áhöfn hans dó þegar sprenging átti sér stað í togara sem hann var skipstjóri á í Ástralíu:
„Við lentum í því að það var sprenging í töflu um borð í skipinu, rafmagnstöflu. Aðaltöflunni í vélarrúminu. Og náttúrlega slokknaði á öllum ljósum og við fengum algert „black out“. Það vildi svo óheppilega til að það sprungu upp allar hurðirnar á töflunni og vildi svo óheppilega til að þriðji vélstjórinn okkar stóð bara tvo metra í burtu og lenti í eldtungunni miðri. Það var annar vélstjóri sem stóð hinum megin í vélarrúminu og hann sagði að maðurinn hefði lyfst upp og henst fjóra til fimm metra í loftinu aftur eftir vélarrúminu. Hann slasaðist því miður mjög mikið. Skaðbrenndist.“