Tíu voru handteknir í tengslum við umfangsmikla rannsókn á fíkniefnalagabrotum og peningaþvætti og fimm þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald, allt íslenskir karlmenn. Um fjörutíu kíló af kannabisefnum voru haldlögð um helgina en Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild, hefur ekki viljað tjá sig nánar um málið.
Lögregla hefur framkvæmt húsleit víða síðustu daga, meðal annars á öldurhúsum og í hesthúsum og lagt hald á tugi kílóa af fíkniefnum. Lögregla framkvæmdi meðal annars húsleit á Gamla enska barnum í Hafnarfirði, stað sem einn sakborninganna rekur og innsiglaði staðinn fram yfir helgi.
Staðurinn er rekinn af Ólafi Ágústi Hraundal en hann var einn sakborninga í Stóra fíkniefnamálinu svokallaða sem var mjög áberandi um aldamótin. Hann hlaut þá einn þyngsta dóm sem fallið hafði í fíkniefnamáli hér á landi, eða níu ár. Fjórtán voru dæmdir í málinu. Ólafur Ágúst var handtekinn eftir að lögregla veitti honum eftirför á Reykjanesbraut á föstudag.
Húsleit hefur verið gerð mun víðar í tengslum við málið, meðal annars í iðnaðar- og heimahúsum, í hesthúsum, og á barnum Catalinu í Hamraborg, þar sem Ólafur Ágúst starfaði sem lausamaður, að sögn eiganda staðarins. Hann segist vera í algjör áfalli og tekur fram að ekkert hafi fundist á staðnum og að enginn hinna grunuðu hafi komið að rekstri staðarins með neinum hætti. Þar sé allt uppi á borðum og segist harma að staðurinn hafi verið dreginn inn í málið.
Starfsfólk Gamla enska barsins í Hafnarfirði sem fréttastofa RÚV ræddi við í dag sagði það hafa komið sér verulega á óvart þegar lögreglu bar að garði, engan hefði grunað að nokkuð misjafnt hefði átt sér stað – en drógu það mjög í efa að staðurinn sjálfur tengdist málinu með neinum hætti. Lögregla hefði innsiglað staðinn og leitað í hverjum króki og kima og ekki gefið heimild til þess að opna staðinn að nýju fyrr en í morgun.