Göngulag Gwyneth Paltrow á Emmy-hátíðinni hefur vakið mikla athygli.
Leikkonan Gwyneth Paltrow stal senunni á Emmy-verðlaunahátíðinni á mánudaginn þegar hún gekk inn á sviðið til að afhenda Jodie Comer verðlaun fyrir hlutverk sitt í þáttunum Killing Eve. Það tók Paltrow óratíma að komast yfir sviðið að hljóðnemanum og þetta vakti upp margar spurningar hjá netverjum.
En skýringin á þessu furðulega göngulagi er komin. Kjóllinn sem Paltrow klæddist mun hafa verið sökudólgurinn.
Stílisti Paltrow, Elizabeth Saltzman, greindi frá því í viðtali við The Hollywood Reporter að Valentino-kjóllinn sem hún valdi fyrir Paltrow þetta kvöldið er frá árinu 1963. Hún sagði að í þá daga hafi ekki verið algengt að hafa klauf aftan á síðum pilsum. Þess vegna átti Paltrow erfitt með að hreyfa sig eðlilega.
Hún segir ekki hafa komið til greina að breyta kjólnum fyrir Emmy-hátíðina „Til að halda kjólnum ósviknum þá vildi ég ekki breyta hönnun Valentinos,“ sagði Saltzman.