Grasalæknirinn Ingeborg:„Samfélagið búið gjörsamlega að hanna sig í kringum hormónahringrás karla.“

top augl

Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium er engin önnur en grasalæknirinn Ingeborg Andersen. Ingeborg lærði vest­rænar grasa­lækn­ing­ar við Uni­versity of West­minster í London. Hér er brot úr viðtalinu.

Samkvæmt Ingeborg er mjög mikið af hormónum í umhverfinu sem hafa gríðarlega mikil áhrif á heilsu. Estrógen segir Ingeborg að megi finna í allskonar hráefnum á borð við pappír og plast ásamt matvælum. Hún nefnir í því samhengi búðarkvittanir sem innihalda Estrógen til þess að gera pappírinn mýkri viðkomu. Hún segist varla vilja snerta kvittanir í búðum því að í raun líti hún á þetta sem mengun sem beri að forðast. 

Áhrifin sem þessir hormónar valda eru vægast sagt alvarleg en til að mynda geta konur þróað með sér allskonar sjúkdóma og karlmenn þróað með sér ófrjósemi sem er mæld í hæstu hæðum á Vesturlöndum í dag. Hún segir að í þessum efnum séu ungir menn að mælast með sæðisframleiðslu á við 60 ára gamlan mann fyrir ekki svo mörgum árum síðan.

 

Ingeborg er mikið náttúrubarn
Ljósmynd: Aðsend

Ingeborg segir að menn séu að falla hratt í Testósteron framleiðslu, fallið eigi sér oft stað skyndilega og geti einkenni slíks falls oft á tíðum verið mjög alvarleg. Geta menn þá fundið fyrir þunglyndi og depurð, kraftleysi og aukningu á líkamsþyngd sem er afar algengt. 

Ástæða lækkunar á Testósteron getur verið af völdum utanaðkomandi hormóna eins og lýst var hér að ofan en Ingeborg sagði að mikilvægt væri að horfa í því samhengi á raunorsakir sem geta meðal annars verið framleiðsla á stresshormónum eins og Cortesol og Adrenalíni sem í raun er alltaf á kostnað Testósteróns. Þannig að með því að lifa lífinu meira í ró og forðast óþarfa stress er maður á sama tíma að stuðla að heilbrigðari hormónaflæðis. 

„Morning glory“ kom til tals í hvað þetta varðaði, eða morgunbónerinn eins og Gunnar kallaði það þegar karlmenn vakna með standpínu. Ingeborg sagði að morgunstandpínan væri ágætis mælikvarði á hvar maður væri staddur hvað heilsuna varðaði, Davíð til mikills léttis enda maður mikillar morgungleði.

„Það er rosalega magnað þegar við förum að líta á það hvernig samfélagið er búið gjörsamlega að hanna sig í kringum hormónahringrás karla. Við förum í vinnuna snemma að morgni og vinnum kannski frá níu til fimm, þegar að testósterónið er hátt, þegar við erum með mestu orkuna. Svo um þrjú, fjögur leytið fer testósterónið að minnka og þá kemur eins og kaffitími eða happy hour, alveg fullkomið fyrir karlmann sem er að missa orkuna. Og þegar testósteronið er hvað lægst er tími til að tengjast fjölskyldunni,“ sagði Ingeborg og bætti við að þetta sé lífstíll sem felur í sér að við endurtökum þennan hring aftur og aftur og aftur. Gunnar spyr hvort það sé ekki gott.

„Ekki fyrir konur, því að konur eru svo allt öðruvísi verur, þær eru svo flóknar. Karlar geta alveg stundað svipaða rútinu á hverjum degi þar sem þeir eru með hormónahringrás sem endurtekur sig á meðan konur eru með í raun fjóra fasa í gegnum allan tíðarhringinn.“

Í lokin færðu þau sig inn í heim getnaðarvarna og fannst Ingeborg það mikilvægasta að í málum sem snúa að í almennri notkun hormónagetnaðarvarna að ákvarðanatakan sé byggð á upplýstum grunni, ekki bara af því að læknirinn segir að eitthvað sé svona eða hinsegin. Ákvörðunin verði að taka út frá rannsóknum sem viðkomandi sjálfur getur útfært aðeins með að afla sér viðeigandi upplýsinga. 

Þetta skemmtilega og fróðlega viðtal má sjá í heild sinni á spilaranum hér fyrir neðan sem og að Þvottahúsið má finna á öllum helstu streymisveitum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni