Samkvæmt nýrri skýrslu Rauða kross Íslands bíður flóttabörnum sem vísað er til Grikklands líf sem er engu barni bjóðandi og að endursending til Grikklands gangi gegn hagsmunum flóttabarna; brjóti þar með í bága við lög.
Samkvæmt áðurnefndri skýrslu hefur flóttafólk í Grikklandi afar takmarkað aðgengi að húsnæði; heilbrigðisþjónustu – menntun; félagslegri aðstoð sem og vinnu.
Eins og landsmönnum ætti að vera kunnugt um þá fyrirhugar, og hefur lagt fram frumvarp þess efnis á alþingi, Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að vísa um 300 hælisleitendum úr landi; nú þegar brottvísanir eru að hefjast á ný eftir langt hlé vegna heimsfaraldursins.
Komið hefur fram að flestir þeirra sem vísa á burt úr landinu verða sendir til Grikklands, og þar eru barnafjölskyldur ekki undanskildar.
Samkvæmt lögum er íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi og í forgangi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þeirra.
Sviðsstjóri hjá Rauða krossinum, Atli Viðar Thorstensen, sagði í samtali við RÚV að hann telji að endursending flóttabarna til Grikklands geti varla verið í samræmi við lög; en í Grikklandi er heilsu flóttabarna og velferð mjög svo ábótavant: Yfirgnæfandi líkur eru á að börnin verði heimilislaus með öllu eða búi við alls óviðunandi aðstæður:
„Búseta á götunni er það sem að bíður þeirra oft á tíðum og aðgengi að menntun er verulega skert, þannig að við teljum það sannarlega ekki þjóna hagsmunum barna.“
Samkvæmt því sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í nýlega, að fólk sem fái alþjóðlega vernd á Grikklandi búi við sömu skilyrði og Grikkir:
„Það getur farið inn á vinnumarkaðinn, það býr við sömu aðstæður og Grikkir búa við,“ sagði dómsmálaráðherra.
Atli Viðar segir þetta kolrangt hjá Jóni:
„Ekki samkvæmt okkar mati og ekki samkvæmt áreiðanlegum skýrslum um ástandið í Grikklandi, og ekki í samræmi við frásagnir þeirra sem hafa komið hingað frá Grikklandi.“
Og bætir við:
„Þannig að við getum alveg hafnað því að staða flóttafólks á Grikklandi sé jafnfætis hinum almenna Grikkja.“