Fjórir flokkar á Alþingi hafa í sameiningu lagt fram frumvarp sem er ætlað að bregðast við yfirvofandi fjöldabrottvísun einstaklinga sem fjallað hefur verið um undanfarið. RÚV greinir frá þessu.
Flokkarnir sem standa að frumvarpinu eru þingflokkur Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar.
Tillaga flokkanna snýr að nýju bráðabirgðarákvæði sem felur í sér að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði ekki sjálfir látnir bera ábyrgð á þeim töfum sem urðu á málsmeðferð þeirra vegna heimsfaraldurs Covid-19. Þar með skuli umsóknir þeirra einstaklinga sem hafi verið hér í tólf mánuði eða lengur teknar til efnislegrar meðferðar.
Auk þessa segir í tilkynningu frá flokkunum fjórum að lagt sé til að umsækjendur sem sóttu um vernd hér á landi í miðjum heimsfaraldri og hafa verið á landinu í 18 mánuði eða lengur, verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
„Fjöldabrottvísunin sem hefur verið í undirbúningi af hálfu íslenskra stjórnvalda er ekki lagaleg nauðsyn, heldur yrði slík framkvæmd pólitísk ákvörðun stjórnvalda,“ segir í tilkynningu flokkanna.
Í tilkynningunni segir ennfremur að með því að leggja fram frumvarpið sé lögð til almenn lausn fyrir þennan tiltekna hóp sem ákvæðið á við. Um sé að ræða einstaka aðgerð líkt og þekkist í fjölmörgum öðrum málum vegna heimsfaraldurs Covid-19.