Kvikmyndin Volaða land, leikstýrð af Hlyni Pálmasyni var heimsfrumsýnd á miðvikudagskvöld og hlaut mjög góðar móttökur áhorfenda á kvikmyndahátíðinni í Cannes, Frakklandi. Aðstandendur myndarinnar, leikstjóri, leikarar og framleiðendur, fengu mikið lof. Að sögn Antons Mána Svanssonar, framleiðanda myndarinnar, hafa viðtökur áhorfenda verið ótrúlegar og gagnrýnendur hlaðið hana lofi. Anton segir að fáar myndir hafi hlotið eins góðar viðtökur á hátíðinni í ár og margir nefni hana sem helstu uppgötvun ársins 2022.
Ekki langt í Gullpálmann sjálfan
Cineuropa birtir gagnrýni Fabien Lemercier, sem segir að þess sé ekki langt að bíða að Hlynur keppi um aðalverðlaun Cannes-hátíðarinnar, sjálfan Gullpálmann, Palme d’Or.
Volaða land er stórkostlegt, epískt ferðalag sem kafar djúpt í efniviðinn og gengur nærri persónum, sem og áhorfendum, segir Lemercier. Kvikmyndatöku Mariu von Hausswolff er jafnframt hrósað í dómi Cineuropa.
Í kvöld kemur í ljós hvort Volaða landi tekst að vinna hug og hjörtu dómnefndarinnar í flokknum Un Certain Regard, þegar verðlaunin verða veitt. Kvikmyndhátiðinni lýkur með lokaathöfn á sunnudagskvöld, þegar tilkynnt verður um vinningshafa Gullpálmans 2022.
Myndin keppir í flokknum Un Certain Regard sem beinir athyglinni að nýjum kvikmyndum þar sem frumleiki og hugrekki einkenna verk leikstjóra.
Lífshættuleg hestaferð um harðneskjulega eyju
Volaða land fjallar um Lucas, ungan danskan prest, leikinn af Elliott Crosset Hove. Hann siglir til Íslands undir lok 19. aldar, en tilgangur með ferðinni er að reisa kirkju og ljósmynda íbúa þessarar þáverandi dönsku nýlendu.
Hann heldur í lífshættulega hestaferð með hópi heimamanna um harðneskjulegt landið, leidda af sérvitrum leiðsögumanni, sem leikinn er af Ingvari E. Sigurðssyni.