Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Hélt það þyrfti náðargáfu til að skrifa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórunn Guðmundsdóttir hefur verið virkur meðlimur í áhugamannaleikfélaginu Hugleik í tuttugu ár. Leikið á sviði, verið í hljómsveitum sýninga og samið nokkur verk í fullri lengd sem félagið hefur sýnt, bæði texta og tónlist, auk margra styttri verka. Sýning Hugleiks, Gestagangur, sem er á fjölunum þessa dagana í Smiðjunni við Sölvhólsgötu, er nýjasta verk hennar og auk þess að vera höfundur þess spilar hún einnig með hljómsveitinni í sýningunni. Hún segir starfið með Hugleik hafa gefið sér ótrúlega mikið og að hinir meðlimir félagsins séu eiginlega orðnir nokkurs konar fjölskylda hennar.

 

En hvernig stóð á því að hún byrjaði að starfa með leikfélaginu á sínum tíma? „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á leikhúsi,“ segir Þórunn. „Pabbi og mamma fóru mikið með okkur systkinin í leikhús þegar við vorum krakkar og sá áhugi slokknaði aldrei. Fyrir tuttugu árum ákvað ég því að fá útrás fyrir leikhúsáhugann og ganga til liðs við Hugleik, sem þá hafði starfað við góðan orðstír í fimmtán ár, og eftir það varð ekki aftur snúið.“

Þórunn er nokkuð einstakur leikritahöfundur því hún lætur sér ekki nægja að skrifa texta verkanna heldur semur hún líka þá tónlist sem flutt er í sumum sýningunum og söngtextana við þá, auk þess að hafa samið nokkrar óperur. Flestar óperurnar hefur hún samið fyrir nemendur Tónlistarskólans í Reykjavík og síðar MÍT. Hún hefur iðulega leikstýrt þeim sjálf og jafnvel séð um búninga og leikmynd, enda hefur hún áhuga á flestum þáttum leikhússins og hefur sótt margs konar námskeið á vegum Bandalags íslenskra leikfélaga. Hún segir það eiginlega hafa verið óvart sem hún fór að skrifa.

„Ég hélt alltaf að ég gæti ekki skrifað,“ segir hún og hlær. „Hélt að það væri bara fyrir mjög sérstakt fólk sem hefði náðargáfu. Ég lærði söng og fór í framhaldsnám til Bandaríkjanna þar sem ég lauk doktorsprófi í söng og söngfræðum og þar kviknaði líka áhugi minn á óperum. Þegar ég fór að semja leikrit fannst mér stundum bráðnauðsynlegt að hafa tónlist í þeim, ég er ægilega veik fyrir orðaleikjum, rími og útúrsnúningum og það er auðveldara að leika sér með slíkt í söngtextum en mæltu máli. Þannig þróaðist þetta áfram.“

Margvísleg samsömun við okkar tíma

Gestagangur gerist á hernámsárunum og er sjálfstætt framhald sýningarinnar Stund milli stríða, eftir Þórunni sem Hugleikur sýndi fyrir fimm árum og gerist á kreppuárunum. Er þetta tímabil í íslenskri sögu henni sérstaklega hugleikið?

- Auglýsing -

„Ekki beint,“ segir hún eftir dálitla umhugsun. „En þegar ég var að skrifa Stund milli stríða grúskaði ég mikið í gömlum heimildum frá miðri síðustu öld og fannst mjög áhugavert hversu margt af því sem þá einkenndi þjóðfélagið er enn við lýði. Mannlegt eðli hefur ekkert breyst á þessum tíma og það eru margs konar samsvaranir á milli okkar tíma og þess tíma sem verkið gerist á. Það er töluverð spilling í gangi í verkinu, margir að nýta sér ástandið, en það er þarna líka ást og vinátta og allt þetta sem gerir okkur mannleg.“

Vildi skapa pláss fyrir skriftirnar

Þórunn starfar sem söngkennari við Menntaskóla í tónlist sem varð til við samruna Tónlistarskólans í Reykjavík og Tónlistarskóla FÍH haustið 2017. Hún hafði áður verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík en ákvað að hætta til að fá meiri tíma fyrir áhugamálin.

- Auglýsing -

„Þetta var bara orðið allt of mikið hjá mér,“ segir hún. „Eitthvað varð að víkja og ég ákvað sem sagt að það skyldi verða aðstoðarskólastjórastarfið. Ég sé ekki eftir því.“

Það starf er þó ekki það eina sem Þórunn hefur lagt á hilluna til að fá meira rúm fyrir skriftir og starfsemi í leikfélaginu. Þrátt fyrir að vera með doktorspróf í söng hætti hún að mestu að syngja opinberlega fyrir tíu árum.

„Ég kom töluvert fram hér áður fyrr,“ útskýrir hún. „Hélt bæði einsöngstónleika og söng með kammersveitum og kórum, en það var sem sagt kominn tími til að draga úr því eftir að skriftirnar fóru að kalla meira á mig.“

En hvað er það við leikhúsið sem heillar svona miklu meira en allt annað?

„Það er bara allt,“ segir hún eftir smávegis umhugsun. „Ég gleymi aldrei tilfinningunni sem greip mig á fyrstu sýningu á verki eftir mig og ég upplifði hlátur áhorfenda og önnur viðbrögð úr salnum við því sem ég hafði samið. Það er bara alveg ólýsanleg tilfinning. Svo er samstarfið í hópnum líka svo gefandi. Þarna er fólk sem hefur starfað með Hugleik í yfir þrjátíu ár og svo alltaf nýir og nýir meðlimir sem koma með nýtt blóð og nýjar hugmyndir.“

„Þegar ég fór að semja leikrit fannst mér stundum bráðnauðsynlegt að hafa tónlist í þeim, ég er ægilega veik fyrir orðaleikjum, rími og útúrsnúningum og það er auðveldara að leika sér með slíkt í söngtextum en mæltu máli.“

Leikararnir þekkja persónurnar betur

Rúmlega þrjátíu manns koma að sýningum á Gestagangi og Þórunn á vart orð til að lýsa því hvað þau hafi lagt mikið til sýningarinnar, sérstaklega leikstjórinn, Þorgeir Tryggvason sem fleiri þekkja sem einn af bókmenntagagnrýnendum Kiljunnar.

„Það var stórkostlegt að vinna þetta með Þorgeiri,“ segir Þórunn. „Hann hefur svo ferska sýn og kom með margar gagnlegar ábendingar um margt sem betur mætti fara, bæði í texta og áherslum. Mér var auðvitað frjálst að hafna þessum tillögum hans, en ég gerði það yfirleitt ekki því ég fann að þær gerðu verkið betra. Það er líka alveg óskaplega gaman að upplifa það að þegar leikararnir fara að kynnast persónunum sem þeir leika þá eru þeir oft með ýmsar vangaveltur um það hvort þessi persóna myndi virkilega segja eitthvað á þennan hátt eða gera eitthvað svona. Þau fara alveg á bólakaf í persónurnar og sjá kannski í þeim eitthvað sem ég sá ekki þegar ég var að skrifa þær.“

Það er auðheyrt að skrifin og starfið með Hugleik er líf Þórunnar og yndi, en hefur henni aldrei dottið í hug að skrifa eitthvað annað? Er kannski hálfkláruð skáldsaga í skúffunni?

„Ekkert sem hægt er að tala um á þessu stigi,“ segir hún varfærin. „Ég á langauðveldast með að skrifa samtöl og hef, eins og ég sagði áðan, óskaplega gaman af orðaleikjum, útúrsnúningum og rími sem nýtur sín best í söngtextum. Jú, ég hef skrifað svolítið af ljóðum sem ekki hafa ratað í sýningarnar, en aldrei gefið neitt út. Það kemur kannski að því einhvern tíma, hver veit.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -