Í gær gerði maður, sem var í hjólastól og dulbúinn sem gömul kona, tilraun til þess að skemma eitt þekktasta verk Leonardo Da Vinci, Monu Lisu.
Samkvæmt New York Times sáu vitni sem biðu í röð eftir að geta tekið sjálfu með hinni fögru Monu Lisu í Louvre safninu í París í gær, hvar maður sem klæddur var í kvenmannsföt stökk upp úr hjólastól sínum og undir reipi við málverkið fræga. Um 100 gestir trúðu vart sínum eigin augum þegar þau sáu manninn berja í glerið sem ver málverkið. Því næst smurði maðurinn eitthvað sem líktist rjómaköku á glerið. Öryggisverðir stukku á hann stuttu síðar.
Samkvæmt yfirmönnum safnsins þóttist maðurinn, sem ekki hefur verið nefndur á nafn, vera fatlaður, svo hann kæmist nær málverkinu. Málverkið skemmdist ekki við árásina.
Lucas Sundberg, tvítugur nemi frá Kansas var í safninu þegar þetta gerðist en hann segir að eftir að búið var að þrífa glerið hafi hann og félagar hans tekið sjálfu af sér með Monu Lisu. Þegar þeir voru á leið út sáu þeir manninn sem hafði reynt að skemma málverkið en sá horfði beint í augu Sundberg á meðan neminn tók hann upp á símann sinn.
„Hann fleygði helling af rósum að mér og byrjaði svo að öskra,“ sagði Sundberg við NYT. Á myndböndum sem dreift var á samfélagsmiðlum heyrist maðurinn öskra á frönsku setningar á borð við „Fólkið sem var að eyðileggja plánetuna“ og „Þess vegna gerði ég þetta.“
View this post on Instagram