„Ég elska starf mitt sem bráðahjúkrunarfræðingur og hef starfað við það sl 7 ár en treysti mér ekki lengur til þess. Get ekki horft uppá þetta lengur,“ skrifaði Soffía Steingrímsdóttir á Facebook-síðu sína í gærkvöldi. Hefur hún ákveðið að segja upp störfum þar sem hún segir aðstæður spítalans aðeins versna.
Gærdagurinn gerði útslagið fyrir Soffíu en voru alls 98 sjúklingar skráðir á bráðamóttökuna klukkan þrjú um daginn. „Þar af voru 33 innlagðir sem eiga heima á deildum uppí húsi sem flest allar voru komnar með 2 yfir skráð rúm. Biðtími hjá sumum sjúklingum fór yfir 5 klst.“ Kemur fram í færslunni að bráðamóttakan hafi aðeins „30 stæði opin“ og því gríðarlega margir sem hafi þurft að bíða.
„Hef beðið og vonað að hlutirnir breytist og lagist en þetta versnar bara. Elska mitt dásamlega klára og flotta samstarfsfólk.
Ég mun taka kvöldið í að skrifa mitt uppsagnarbréf og senda til míns yfirmanns á morgun, þetta er komið gott.“
Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Bráðamóttakan 30.maí. Við eigum 30 stæði opin. Í dag voru 98 sjúklingar skráðir á bráðamóttökuna kl.15, þar af voru 33 innlagðir sem eiga heima á deildum uppí húsi sem flest allar voru komnar með 2 yfir skráð rúm. Biðtími hjá sumum sjúklingum fór yfir 5 klst. Ég stóð vaktina frammi í biðstofu og tók á móti fólki til að forgangsraða veikindum fólks inná bráðamóttökuna, fólki sem margt hvert getur ekki leitað til heilsugæslunnar eða læknavaktar og þarf á þjónustu bráðamóttökunnar að halda. Þessir dagar eru farnir að vera normið frekar en undantekningin, ég elska starf mitt sem bráðahjúkrunarfræðingur og hef starfað við það sl 7 ár en treysti mér ekki lengur til þess. Get ekki horft uppá þetta lengur. Hef beðið og vonað að hlutirnir breytist og lagist en þetta versnar bara. Elska mitt dásamlega klára og flotta samstarfsfólk.
Ég mun taka kvöldið í að skrifa mitt uppsagnarbréf og senda til míns yfirmanns á morgun, þetta er komið gott.“