Afmælisbarn dagsins snýr aftur eftir smá hlé en í þetta sinn er það af dýrari kantinum. Það er enginn annar en dagskrárgerðarmaðurinn góðkunni úr Njarðvíkum, Þórður Helgi Þórðarson eða Doddi litli eins og hann kallar sig sjálfur, sem á afmæli í dag. Ku hann vera 53 ára í dag.
Doddi litli hefur verið áberandi síðustu áratugina, bæði sem dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og tónlistarmaðurinn Love Guru þó lítið hafi heyrst af honum síðustu árin. Á því er þó breyting því hann stefni brátt á endurkomu.
Mannlíf heyrði í Dodda litla og spurði hann út í afmælisdaginn.
„Ég ætla að fagna deginum með því að vinna til svona 23 í kvöld. Ég er núna að klippa Grínland með Jakobi Magnússyni, svo tek ég upp podcast þar sem við kveðjum Andy Fletcher sem var í Depeche Mode en lést nýlega. Síðan er ég að fara að hjálpa Partyzone að taka upp þáttinn Undir diskókúlunni sem verður á laugardaginn. Þannig að þetta er hörku afmælisdagur.“
Aðspurður hvort hann fengi ekki einu sinni köku í tilefni dagsins svaraði Doddi: „Heyrðu ég fékk Lindubuff frá henni Rósu sem er með Popplandið. Það er svona hámark dagsins hjá mér.“
Mannlíf spurði Dodda litla um það hvort hann hefði eitthvað á prjónunum á næstunni, svona almennt.
„Ég er að fara að gefa út Guru lag á föstudaginn,“ svaraði Doddi spenntur.
En þegar Mannlíf spurði hann hvort hann ætlaði eitthvað til útlanda eins og margir um þessar mundir var hann fljótur að svara. „Nei, ég er rosalega lítið fyrir það að ferðast. Ég eiginlega hata að ferðast. Ég fer mjög sjaldan út og fer eiginlega mjög sjaldan úr húsi, ég er það spennandi og skemmtilegur karakter,“ sagði Doddi litli og bætti við: „Covid var fínt, besti tími ævinnar. Ég þurfti ekki að hitta neinn og gat bara hangið heima, gat meira að segja unnið heima.“
Mannlíf óskar Dodda litla innilega til hamingju með daginn og vonar að njóti þó vinnunnar á afmælisdeginum.