Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Er sannleikurinn sagna bestur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég var ekki gömul þegar mér var kennt að sannleikurinn væri ávallt sagna bestur.

Mér var kennt að sama hvað ég hefði gert af mér, þá væri alltaf best að segja satt um það. Það væri mun verra að hylma yfir og ætla sér að komast hjá afleiðingunum. Sannleikurinn kæmi nefnilega alltaf í ljós. Það væri auðveldara að viðurkenna mistök, biðjast afsökunar og vonandi læra af hliðarsporinu, en að ljúga um atvikið og lenda síðar í því að þurfa að falast eftir fyrirgefningu á bæði misferlinu og lygunum.

Seinna á lífsleiðinni fór ég að verða vör við ákveðna sveigju á þessu lífsgildi. Ég fór að heyra að ef til vill væri sannleikurinn ekki sagna bestur, það væri kannski matsatriði; hvítar lygar væru jú stundum í lagi. Gott og vel, kannski eru hvítar lygar stundum í lagi, þegar sannleikurinn þjónar engum öðrum tilgangi en að pirra, eða í versta falli særa mótherjann.

Dæmi: Þú spyrð mig hvort mér þyki nýja klippingin þín ljót, eða hvað mér finnist um nýju, rándýru úlpuna þína, sem er í lit sem mér finnst ógeðslegur og sniði sem ég hata af krafti. Kannski er best að fara með litla, hvíta lygi í þessum tilfellum. Ég er samt meðvituð um að smekkur manna er sannarlega misjafn og þótt eitthvað kalli hreint ekki á mig, get ég kunnað að meta ólíkan stíl annarrar manneskju. Það er skemmtilegt hvað við erum öll ólík.

Ég er samt ekki sannfærð hvað varðar þessa tilteknu hvítu lygi. Ég er hreint ekki viss um að mér tækist að segja fullkomlega ósatt, án þess að ætla að fullyrða neitt. Málið er, að lygar eru ekki mín sterka hlið. Oftast, þegar ég er spurð, segi ég nákvæmlega það sem mér finnst. Það bara hreinlega sleppur út úr mér, eins og orða-æla (líkt og gerði garðinn frægan í einni stórbrotnustu klassík þessarar aldar; Mean Girls). Sumir verða vissulega pínulítið argir, stundum, en þeir eru þó í minnihluta. Flestir kunna að meta hreinskilnina og gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að það voru jú þeir sem spurðu. Ekki spyrja ef þú vilt ekki vita.

Svo á ég nokkra vini sem vita alveg að ég segi það einfaldlega, þyki mér einhver hlutur eða flík jaðra við að vera glæpur gegn mannkyninu, nú eða ef mér finnst hegðun þeirra ekki hafa verið þeim til framdráttar. Málið er samt að ég segi það einungis ef ég er spurð. Og orða það svona helst til snyrtilega. Ég er nefnilega ekki bara hreinskilin, heldur líka frekar kurteis, vil ég meina. Ætli það bjargi mér ekki.

- Auglýsing -

Sumir segja að ég sé klassískur sporðdreki með ofvirkan brodd þegar sá gállinn er á mér. Látum það liggja milli hluta.

 

Sannleikurinn sem skiptir máli

Það sem ég nefni hér að framan er samt ekki sá sannleikur sem skiptir mestu máli. Það sem skiptir mestu eru sannindi um það þegar þú hefur gert eitthvað á annars hlut, eða þegar þú veist af atburðum eða upplýsingum sem koma illa við einhvern annan, hvort sem einhver er þá að svíkja viðkomandi eða segja ósatt með öðrum hætti. Þarna vilja sumir nefnilega meina að hvítar lygar séu gjaldgengar. Að sannleikurinn sé ekki alltaf sagna bestur. Það sem þau vita ekki, skaðar þau ekki. Rétt?

- Auglýsing -

Ég ætla að ganga svo langt að segja nei; ekki rétt. Leyfið mér að útskýra.

Ég er þeirrar skoðunar að allir eigi rétt á sannleikanum, sama hversu sár hann kann að vera. Ég sé hlutina þannig, að með því að halda sannleikanum frá einhverjum til þess að hlífa þeim, séum við í raun að taka af þeim valið. Valið til þess að velja. Og að velja er vald.

Með því að segja fólki ekki sannleika sem tengist þeim, lífi þeirra og gildum erum við að taka af þeim vald yfir eigin lífi. Ég held að ég sé ekki að teygja mig of langt þegar ég segi að ég telji alla vilja hafa ákvörðunarvald yfir eigin lífi. Fyrir utan þetta er það síðan hvort eð er yfirleitt ódýrt yfirvarp að verið sé að hlífa viðkomandi. Staðreyndin er sú að með því að segja ekki sannleikann erum við yfirleitt að hlífa okkur sjálfum meira en nokkrum öðrum. Það er eigingjarn. Sjálfhverft.

Hér er ég hreint ekki að segja að ég hafi aldrei sagt ósatt eða leynt einhverju. Sannarlega ekki. Það hins vegar endist almennt ekki lengi. Ég er með ofvirka samvisku sem étur mig að innan og spilar á allar taugar þar til ég breytist í sannleiksspúandi, rjúkandi rústar-dreka. Auk þess kem ég einhvern veginn alltaf að þessum rétti fólks, sem mig langar ekki til að taka af neinum. Í ofanálag veit ég sem er, að lygar hafa tilhneigingu til að vinda upp á sig þar til orðið er úr skrímsli sem við ráðum ekkert við.

 

Valdið í vitneskjunni

Ég er þeirrar skoðunar að þegar þú gerir einhverjum óleik, gerir eitthvað á þeirra hlut, ferð á bak við viðkomandi eða ferð á annan hátt yfir mörk og treður á gildum hans, beri þér að segja viðkomandi frá því. Þá hefur sá hinn sami vitneskjuna og valdið til þess að taka ákvörðun út frá hinum nýju upplýsingum. Finnst honum þetta í lagi? Finnst viðkomandi brotið á sér? Getur hann fyrirgefið eða fer þetta of langt yfir mörk hans? Kann hann einfaldlega að meta hreinskilnina og sambandið, hvers eðlis sem það er, verður betra í kjölfarið?

Vitneskja er vald. Að halda eftir sannleikanum er að taka valdið af annarri manneskju.

Og sannleikurinn kemur alltaf í ljós, með einum eða öðrum hætti. Ég veit ekki með ykkur – en ég vil vita.

 

Þennan pistil, ásamt fleira efni, má finna í tímariti Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -