Skýr lög og reglur gilda um sjúkraskrár eintaklinga á Íslandi. Til þess að mega fara inn í sjúkraskrá einstaklinga þarf að liggja að baki ríkt og sannanlegt erindi. Það telst gróft brot á persónuvernd og einkalífi fólks ef farið er inn í sjúkraskrá þess án þess að heimild sé fyrir hendi.
Hjónin Gunnar og Hlédís lýstu því á dögunum í viðtali hvernig þau teldu að farið hefði verið inn í sjúkraskrár þeirra ótal sinnum með ólögmætum hætti. Þau segja mikið magn uppflettinga vera í nafni heilbrigðisstarfsmanna sem aldrei hafi annast þau. Ef rétt reynist myndi það teljast gróft brot á lögum um sjúkraskrár.
Þurfa að koma að meðferð viðkomandi
Einungis þeir heilbrigðisstarfsmenn sem sannarlega annast einstakling á heilbrigðisstofnun, eða koma að meðferð hans með einhverjum hætti og þurfa á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna þessa, hafa heimild til þess að fara inn í sjúkraskrá viðkomandi. Þeir heilbrigðisstarfsmenn þurfa að geta fært á það sönnur að hafa átt erindi inn í sjúkraskrá þess einstaklings sem um ræðir.
Aðrir starfsmenn eða nemar í starfsnámi í heilbrigðisvísindum, sem undirgengist hafa sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð sjúklings, geta fengið heimild til aðgangs að sjúkraskrá hans að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfa þeirra aðila í þágu sjúklingsins.
Ef ekki er unnt að sanna réttmætt erindi heilbrigðisstarfsmannsins inn í sjúkraskrána stendur viðkomandi frammi fyrir því að hafa hugsanlega gerst brotlegur gagnvart sjúklingnum.
Það er Landlæknir sem hefur eftirlit með því að ákvæði laga um sjúkraskrár séu virt. Persónuvernd sér um eftirlit með öryggi og vinnslu persónuupplýsinga í sjúkraskrám.
Landlæknir tekur slík mál alvarlega
Mannlíf sendi á dögunum embætti landlæknis nokkrar spurningar í tengslum við lög og reglur um sjúkraskrár. Meðal annars var spurt hvernig það horfi við embætti landlæknis ef ótal heilbrigðisstarfsmenn virðist hafa farið inn í sjúkraskrá einstaklings, án þess að eiga þangað erindi og án þess að hafa annast viðkomandi sjúkling eða starfað á þeim deildum þar sem viðkomandi hafi fengið umönnun.
Í svari Landlæknis segir að slíkt sé með öllu óheimilt og að embættið taki öll slík mál sem því berist alvarlega; rannsaki þau og beiti viðurlögum í samræmi við lögin eftir því sem við eigi um alvarleika þeirra brota sem um ræði.
Ef rannsókn leiðir í ljós að verulegar líkur séu á því að uppflettingar í sjúkraskrá hafi brotið gegn persónuverndarhagsmunum sjúklings skal brot kært til lögreglu.
Brot gegn ákvæðum laga um sjúkraskrár og þeim reglum sem settar eru í samræmi við þau geta varðað sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Ef rétt reynist, að ólögmætar uppflettingar í sjúkraskrám þeirra hjóna séu með þeim hætti sem þau hafa lýst og sýnt Mannlífi á gögnum, er því um gróft lögbrot gegn þeim að ræða.