Nýjasti gestur Wiium bræðra í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er reiðhjólahvíslarinn Bjartmar Leósson. Hér er brot úr því viðtali.
Þrátt fyrir að Bjartmar hafi oft á tíðum lent í útistöðum við hjólaþjófa hefur hann svona í heildina einungis fagra sögu að segja um samskipti sín við þennan jaðarsetta hóp ef svo má kalla þá. Hann nefnir við Wiium bræður að hjólin eru týnd því fíkillinn er týndur og hann vill svo sannarlega hjálpa til í baráttunni við að koma ljósi þar sem myrkur er, svo mikið er ljóst. Hann minntist á skaðaminnkunarúræðin sem eru í boði en undirstrikar mikilvægi þess að auka á þessa heilbrigðisþjónustu sem hann vill meina að fíkillinn verðskuldi í sjúkdómi sínum. Neyslan er að aukast til muna milli ára og aukin þörf á úrræðum er klárlega til staðar. Segir Bjartmar að mikilvægt sé að sýna þessu fólki virðingu og kærleik því það er einmitt það sem svo kemur til baka að lokum. Það að fíkillinn sé háður dópsölumönnum sem svífast einkis með alls konar ofbeldi og hrottaskap vill Bjartmar meina að sé ekki bara hræðilegt heldur líka algjörlega óábyrgt og ónauðsynlegt. Hann vill sjá meðhöndlun á þessum hópi í höndum heilbrigðisstarfsfólks og ekki bara með hreinum áhöldum og aðstöðu fyrir örugga inngjöf á efnum heldur einnig örugga skömmtun á efnunum sjálfum svo að þörf fíkilsins í allskonar afbrot sé minnkuð til muna.
„Þetta er eins og hann Svavar vinur minn sagði þegar hann kynntist frú Ragnheiðarbílnum sem er skaðaminnkunarúræði en honum var sagt að það sé bara einhver bíll þarna og hann geti bara fengið öruggan stað þarna og kannski einhverja hjálp, föt, mat, tjald og svefnpoka jafnvel. Hann sagði að þegar hann koma þarna inn, þá gat hann í fyrsta skiptið í mjög langan tíma slakað algjörlega á, hann gat bara algjörlega verið hann sjálfur, bara „Hæ, ég er hérna og ég er fíkill og ég er á götunni og ekkert mál vinur minn, bara komdu“ og hann er edrú í dag en hann þakkar þessu starfi að hann sé edrú í dag.“
Þetta magnaða viðtal er hægt að sjá og heyra í heild sinni hér á spilaranum fyrir neðan eða nálgast á öllum helstu streymisveitum.