Tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant sendi frá sér nýtt lag í gær en það er af væntanlegri plötu hans. Segja má að þetta sé það fyrsta nýja frá honum í 3 ár á heimsvísu að undanskildum þeim tveimur íslensku lögum sem komu út aðeins á Íslandi á síðasta ári.
„Lagið Guru tekur mig aftur í tímann. Ég hugsa um uppeldið í Betel sem kom manni oft á óvart. Farands predikarar og andlegir leiðtogar sem fylltu mann von, gleði og þrá um eitthvað stórkostlegt. En einstaka sinnum kom líka fólk með sturlaða jaðarsýn á lífið. Í mínum huga voru þetta einhverskonar Gúrúar syndandi í villtum kenningum sem skildu oft eftir sig óþægilega þögn og miklar vangaveltur. Lagið tekur á því sanna og því falska. Taktur og tilfinning lagsins byggist á endurtekningu sem róar hugann og leiðir mann í núið.“