Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Ásta Arnbjörg, oddviti K-lista í Eyjafjarðarsveit: Hann sagði „sjáumst á morgun“ en það varð aldrei

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það að ég ákvað að taka þátt í sveitarstjórnarmálum er einlægur áhugi á samfélaginu og að ég hef þá trú að sem allra flestir eigi að taka þátt í einhvers lags samfélagslegri vinnu. Það er svo mikill lærdómur í því að taka þátt í félagsmálum og því að skilja hvernig hlutirnir virka. Að vinna að því að koma góðum málum áfram og sjá mikilvæg samfélagsleg verkefni verða að veruleika er mjög gefandi. Samfélagið er mannanna verk og við ráðum því hvernig samfélagið okkar er,“ segir Ásta Arnbjörg Pétursdóttir, oddviti K-listans í Eyjafjarðarsveit.

Hvers vegna K-listinn? „Það var hópur af frábæru fólki sem fór af stað á sínum tíma og stofnaði K-listann og þegar ég var beðin um að leiða listann þá þurfti ég lítið að hugsa mig um því áhuginn á pólitík er mikill hjá mér og þegar unnið er með frábæru fólki, sem kemur úr ólíkum áttum og með margvísleg sjónarmið, þá verður til kraftur og hugmyndir sem gaman er að vinna að og gera gott samfélag enn betra ef þær ná fram að ganga.“

Við verðum að hlusta á vilja íbúanna.

Hvaða máli skiptir Ástu að vera komin í sveitarstjórn?  „Það skiptir mig miklu máli að vera í sveitarstjórn því ég hef skoðanir á málefnum sveitarfélagsins og vil vinna að þeim en styrkleikar mínir liggja líka í því að ég kann vel að hlusta á fólk og það er eitt af því sem stundum vantar í pólitík. Ég lít svo á að þeir sem taka að sér setu í sveitarstjórn séu að sinna einhvers konar þjónustustarfi við íbúana; við verðum að hlusta á vilja íbúanna og leggja metnað okkar í að vinna að málum með þeim eins og nokkur kostur er. Ég verð að segja að mér leiðist sú leið sem er svo oft farin sem er að þeir sem eru í pólitík kunni allt og viti allt og æði áfram með lokuð eyrun. Ég held að við getum gert svo margt á svo miklu betri hátt.

Í Eyjafjarðarsveit er mikil uppbygging og mörg mikilvæg verkefni fram undan og verður viðbygging við skólann eitt af stóru verkefnum næstu ára og einnig er mikilvægt að hitaveita komi víðar í sveitarfélagið. Þá vil ég líka að öll þjónusta við íbúana sé til fyrirmyndar og í takt við tíðarandann í þeim málum þarf sveitarfélagið að gera enn betur.“

Ásta Arnbjörg Pétursdóttir

Langoftast skemmtilegt ferðalag

- Auglýsing -

Ásta ólst upp á Hranastöðum í Eyjafjarðarsveit næst yngst fjögurra systra. „Þetta var þriggja kynslóða heimili því föðuramma mín bjó hjá okkur sem ég kunni vel að meta. Æskuárin voru góð; að alast upp í sveit og fá að brasa með fólkinu átti vel við mig. Ég á systur sem er tæplega ári eldri en ég og höfum við alltaf verið nánar svo aldrei vantaði félagsskapinn og brösuðum við mikið saman. Mér þótti alltaf gaman í skóla og naut þess að hitta vinkonur mínar þar og þótti mér frímínútur klárlega skemmtilegastar enda gekk mér erfiðlega í lestri til að byrja með en það kom allt saman og hef ég notið þess að læra síðan; ég vil alltaf vera að bæta við þekkingu mína. Það að hafa þurft að hafa mikið fyrir lestrinum var mér aldrei svo þungbært eins og ég heyri marga lýsa því og tel ég það vera vegna þess hversu styðjandi foreldrar mínir voru. Þau voru svo dugleg að lesa fyrir mig og létu mig aldrei finna að þetta væri eitthvað vandamál heldur einungis verkefni sem þyrfti að finna lausn á og það tókst og á þann hátt efldist þrautseigjan sem er að ég tel einn að mínum bestu styrkleikum í dag.

Líf okkar hefur langoftast verið skemmtilegt ferðalag.

Ég varð ung ástfangin og trúlofaði mig þegar ég var aðeins sautján ára gömul, en hef aldrei séð eftir því. Við erum hjón í dag og höfum fengið að þroskast saman og líf okkar hefur langoftast verið skemmtilegt ferðalag, en erfiðleikana höfum við þá tekist á saman og út úr því kemur alltaf einhver lærdómur. Við eigum þrjú uppkomin börn sem öll eru að mennta sig og koma undir sig fótunum. Það er eitt af þessu fallega í lífinu að sjá börnin sín vaxa og dafna.“

Ásta Arnbjörg Pétursdóttir

- Auglýsing -

Fjölskyldur eru alls konar

Ásta er bóndi og fjölskyldufræðingur

„Ég hef gaman af námi enda menntað mig í ýmsu. Við hjónin fórum saman í Bændaskólann á Hvanneyri og ákváðum svo 2001 að kaupa Hranastaði af foreldrum mínum og höfum því verið við búskap í rúm 20 ár. Það að vera bóndi er skemmtilegt starf. Við erum með um 120 kýr í tveggja róbóta fjósi og svo höfum við síðan 2018 verið að byggja upp hænsnabú. Við höfum alltaf lagt áherslu á að byggja upp og stækka og þróa búskapinn. Til að vera í búskap þarf að vera brennandi áhugi því dýrin þurfa alltaf sitt sama hvaða dagur er og því er bindingin mikil og nauðsynlegt að hafa gott starfsfólk til að geta litið upp. Ég hef valið mér að vera að hluta til í búskapnum og sinnt fjölskylduráðgjöf að hluta eftir að ég lauk námi í fjölskyldufræðum frá Háskóla Íslands árið 2013. Það er krefjandi en jafnframt mjög gefandi að sinna fjölskylduráðgjöf. Fjölskyldur eru alls konar en eiga það allar sameiginlegt að stundum koma upp mál sem þeim þykir erfitt að finna lausn á og þá er gott að fá fagaðila til að horfa á málið með þeim og sjá það úr ólíkum áttum og aðstoða fjölskylduna við að prófa nýjar leiðir. Það er styrkleiki fjölskyldufræðinnar að horfa á málin á heildrænan hátt en ekki út frá einstaklingnum.“

Hvernig er líf bóndans þegar bústörfum og stjórnmálum sleppir?

„Lífið er meira en vinna og snúa mín áhugamál að útivist og hreyfingu. Við hjónin göngum mikið og síðustu ár höfum við farið í lengir og styttri gönguferðir í góðum félagsskap. Ég hef líka mjög gaman af ferðalögum og reyni að komast á framandi slóðir reglulega til að sjá eitthvað nýtt og upplifa aðra menningu en við þekkjum.“

Það er erfitt að missa fólkið sitt og hefur mikil áhrif á mann en um leið lærir maður að meta lífið og að það er alls ekki sjálfsagt.

Hver er erfiðasta lífsreynsla sem Ásta hefur gengið í gegnum?

„Erfiðasta lífsreynsla sem ég hef lent í var þegar ungur frændi minn dó í slysi aðeins 12 ára gamall. Hann hafði verið að brasa í sveitinni hjá okkur og var á heimleið á hjóli þegar slysið varð. Við kvöddumst hress og kát og hann sagði „sjáumst á morgun“ en það varð aldrei. Einnig misstum við pabba alltof ungan frá okkur en hann var aðeins 54 ára þegar hann lést. Það er erfitt að missa fólkið sitt og hefur mikil áhrif á mann en um leið lærir maður að meta lífið og að það er alls ekki sjálfsagt. Það kennir manni að verja tíma sínum í eitthvað gefandi og taka ekki þátt í einhverjum leiðindum sem maður þarf bara alls ekkert að stíga inn í.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -