Fyrrum þingmaður Pírata, fréttamaðurinn og grínistinn Gunnar Hrafn Jónsson henti sprengju á Facebook-vegginn sinn í dag. Upp úr þeirri sprengju spruttu upp mikið rifrildi meðal Pírata.
Í færslunni heldur Gunnar Hrafn því fram að þegar Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrum þingmaður Pírata, hafi tekið við sem leiðtogi flokksins fyrir þarsíðustu kosningar, hafi verið hans fyrsta verk að reka Gunnar Hrafn úr flokknum. Það hafi hann gert eftir að hafa boðað Gunnar á fund fyrir utan sjoppu í Vesturbænum. Tilkynnti Helgi honum að hann mætti ekki bjóða sig fram aftur í nafni flokksins, því það myndi skaða flokkinn. Sagðist Helgi hafa fyrir því heimildir að taka ætti Gunnar Hrafn af lífi í fjölmiðlum vegna dræmrar mætingar á nefndarfundi og þingflokkfundi. Segir Gunnar í færslunni að hann hafi skoðað gögnin sjálfur og séð að hann hafi verið í veikindaleyfi eða utan þingflokks í flestum ef ekki öllum tilfellum. Segir hann Helga ekki hafa tekið mark á því og sagt að blaðamaður nokkur myndi brátt rekja málið innan skamms. Heldur Gunnar því fram í færslunni að blaðamaðurinn sé Björn Leví Gunnarsson, mótframbjóðandi hans í prófkjörinu. Hér er færslan í heild sinni:
„Að gefnu tilefni.
Það er skammarlegt og mun kosta Pírata minnst eitt atkvæði í næstu kosningum.“
Björn Leví neitar
Björn Leví svarar færslunni og segist ekki vita hversu oft hann hafi mætt í nefnd fyrir Gunnar á þessum tíma.
Eins og ég segi. Þá eru þessar upplýsingar aðgengilegar öllum í fundargerðum. Þær upplýsingar tala bara fyrir sig sjálfar. Ég var búinn að birta þessar upplýsingar reglulega frá því á kjörtímabilinu 2013 – 2016 eftir að Morgunblaðið notaði gríðarlega undarlega aðferð til þess að sýna mætingu þingmanna í nefndir.“
Þessu svarar Gunnar Hrafn: „Björn Leví Gunnarsson. Það var enginn „blaðamaður“ að fylgjast með þessu, bara þú, og þú vissir vel að ég stóð utan þingflokks Pírata lengi vel eftir að þið hentuð Ástu á haugana, fyrir utan veikindaleyfið. Ég hlífði ykkur við því að ganga í Samfylkinguna og taka af ykkur þingmann en það var tæpt – MJÖG tæpt. Auðvitað mætti ég ekki á þingflokksfundi á þessum tíma, ég hefði betur farið í annan flokk og það stóð tæpt. Afar tæpt.“
Björn Leví svaraði: „Gunnar Hrafn Jónsson – ég hef ekki hugmynd um það. Fjölmiðlar höfðu áður fjallað um mætingu þingmanna í nefndir. Ég er bara að segja frá því sem ég hef gert hvað það varðar og er aðgengilegt öllum í fundargerðum. Ég hef ekki hugmynd um hvort Helgi var að vísa í mig eða eitthvað annað. Ef hann notaði „blaðamaður“ þá var hann örugglega ekki að tala um mig hins vegar, svo mikið held ég að sé augljóst. Það gæti vel verið að einhver blaðamaður hefði notað samantektina sem ég gerði með forritinu mínu sem ég hafði verið að nota í nokkur ár … en Morgunblaðið td. notaði aðra talningaraðferð (taldi bara mætingar aðalmanna í aðalnefndir. Ekki mætingu annarsstaðar á sama tíma sem varamenn td).“
Og þá svaraði Gunnar: „Tölfræðin um mig var röng. Það er munurinn. Ég var ýmist í veikindaleyfi eða utan þingflokks. Og það var bara tilviljun að þessar röngu upplýsingar gáfu þér undirtökin í prófkjörinu, fyrir utan símtölin sem ég heyrði af en ætla ekki að rekja hér. Rosalega geturðu lagst lágt.“
Hætti í Pírötum eftir að Ásta var sett af
Rökræðurnar ganga svo áfram á víxl en Gunnar Hrafn segist hafa látið þingflokkinn vita að hann væri utan þingflokks eftir að Ásta Guðrún Helgadóttir var sett af sem þingflokksformaður, þó það hafi ekki verið gert opinberlega. Fleiri Píratar koma svo inn í rifrildið og verja ýmist Helga Hrafn og Björn Leví. Athygli vekur að Helgi Hrafn tjáir sig ekki undir færslunni.
Í samtali við Mannlíf sagðist Gunnar Hrafn vera búinn að fá nóg af hræsninni í Pírötum í dag.
„Ég hef þagað yfir þessu lengi en fékk bara nóg af hræsninni sem gegnsýrir Pírata í dag, mér var bolað út vegna persónulegra hagsmuna og fordómum gegn andlegum veikindum og það er ekki flokkur sem ég get stutt lengur.“
„Hélt við værum vinir“
Mannlíf heyrði í Helga Hrafni og spurði hann út í málið.
„Ég skammast mín ekki neitt fyrir nokkurn skapaðan hlut. Ég hef hvorki neitt að fela né skammast mín fyrir í þessu máli. Og ef að sama staða kæmi upp myndi ég geri nákvæmlega það sama aftur og ef ég verð einhverntíman í sömu stöðu og Gunnar var í á þessum tíma, þá vona ég að einhver góður vinur minn komi til mín og tali við mig um stöðuna. Þá myndi ég þakka þeim vini, eftir á frekar en að kasta í hann útúrsnúningum og rangtúlkunum og skömmum. Þetta er pirrandi því ég hélt við værum í sama liðinu, ég hélt að við værum vinir. Það er bara leiðinlegt að fá svona framkomu frá einhverjum sem maður hélt að kæmi ekki svona fram við mann,“ sagði Helgi Hrafn.