Sunnudagur 5. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Manneskja ársins 2019

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf gefur lesendum sínum kost á að taka þátt í vali á manneskju ársins 2019 með netkosningu á man.is.

Valið stendur á milli einstaklinga sem hafa skarað fram úr á liðnu ári og verið áberandi í umræðunni.

Kosning fer fram til hádegis mánudaginn 6. janúar hér á vefnum og hver IP tala getur kosið einu sinni.

Niðurstöðurnar verða birtar í fyrsta tölublaði Mannlífs sem kemur út föstudaginn 10. janúar.

Eftirtaldir einstaklingar koma til greina og er þeim raðað í stafrófsröð:

Guðrún Ögmundsdóttir Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Guðrún Ögmundsdóttir baráttukona og fyrrum þingmaður
Guðrún lést að morgni gamlársdag, 69 ára að aldri, eftir baráttu við krabbamein sem hún greindist með áramótin 2018-9. Guðrún, sem barðist alla tíð ötullega fyrir réttindum minnihlutahópa og þeirra sem minna mega sín, sagði í viðtali við Mannlíf að hún væri full þakklætis og stolt af því sem áunnist hefði. Þrátt fyrir að hafa verið sæmd fálkaorðunni og heiðursmerki Samtakanna ´78 í fyrra sagði hún stærstu viðurkenninguna vera að skjólstæðingar hennar litu á hana sem eina úr þeirra hópi.

Haraldur Þorleifsson Mynd / Aðsend

Haraldur Þorleifsson stofnandi Ueno
Haraldur Þorleifsson stofnaði fyrir fimm árum stafræna hönnunarfyrirtækið Ueno, sem í dag er með 65 starfsmenn á Íslandi og í Bandaríkjunum. Fyrirtækið er í stöðugum vexti og segir Haraldur fyrirséð að fyrirtækið muni halda áfram að stækka og þróast. Haraldur sem er fæddur og uppalinn í Vesturbænum hefur vegna meðfædds vöðvarýrnunarsjúkdóms notað hjólastól frá því hann var 25 ára, en hann lætur sjúkdóminn ekki stöðva sig.

- Auglýsing -
Gunnar Karl Ólafsson
James McDaniel
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Sveinn Rúnar Einarsson

Gunnar Karl Ólafsson, James McDaniel og Sveinn Rúnar Einarsson
Gunnar Karl, James og Sveinn Rúnar stigu fram í viðtali við Mannlíf og lýstu reynslu sinni eftir nauðgun og kynferðislegt ofbeldi. Sögðu þeir sögur sínar til að opna umræðuna um kynferðislegt ofbeldi gagnvart karlmönnum, auka skilning á þeim málum og benda á að hversu nauðsynlegt er að leita sér aðstoðar ef einstaklingar verða fyrir slíku ofbeldi

Haukur Örn Birgisson
Mynd / Hallur Karlsson

Haukur Örn Birgisson
Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður og formaður Golfsamband Íslands opnaði sig um sára lífsreynslu sína, en hann og Guðríður Magndís Guðmundsdóttir, sambýliskona hans, eignuðust andvana tvíbura eftir 22 vikna meðgöngu. Pistill sem Haukur Örn skrifaði í Fréttablaðið og viðtal í Mannlíf vöktu mikil viðbrögð, en Haukur Örn sagðist ekki vanur að bera tilfinningar sínar á torg með þessum hætti.

Hildur Guðnadóttir
Mynd / EPA

Hildur Guðnadóttir tónskáld
Hildur Guðnadóttir tónlistarkona og tónskáld. Sem kunnugt er hefur Hildur hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga á árinu fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker og þáttunum margrómuðu Chernobyl. Hún lenti meðal annars á lista yfir listamenn sem eiga möguleika á tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í Joker, vann Hollywood Music in Media verðlaunin í flokknum besta frumsamda tónlistin fyrir sömu tónlist og er tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna fyrir tónlistina í myndinni. Er þá fátt upp talið. Hefur Hildur þannig náð að stilla sér upp í röð með fremstu kvikmyndatónskáldum í heimi á árinu 2019 og vekur enn mikla athygli á nýju ári.

- Auglýsing -
Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarkona
Kvikmyndagerðarkonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir frumsýndi á árinu þætti sína Svona fólk. Þættirnir eru afrakstur 27 ára viðleitni Hrafnhildar til að skrásetja og varðveita samtímaheimildir um baráttu homma og lesbía; erfiðleikana, átökin og sigrana. Um leið eru þeir áhugaverð heimild um þær miklu breytingar og framfarir sem hafa orðið í íslensku samfélagi síðustu áratugi. Þættirnir hafa því ótvírætt sögu- og menningarlegt gildi fyrir þjóðina.

María Rut og Ingileif
Mynd / Facebook

Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristjánsdóttir aktivistar
Hjónin Ingileif Friðriksdóttir, fjölmiðlakona og María Rut Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar, hafa um árabil haldið úti hinum vinsæla fræðsluvettvangi Hinseginleikanum. Hinseginleikinn hefur í gegnum tíðina tekið á sig ýmsar ólíkar myndir, verið á samfélagsmiðlum (rás á Snapchat og Instagram), orðið að vinsælum sjónvarpsþætti, fyrirlestrastöð og hlaðvarpsseríu og þannig átt þátt í að fræða ungmenni um hinsegin veruleika, veita þeim fleiri hinsegin fyrirmyndir og brjóta niður staðalímyndir.

Hagaskóli

Nemendur í Hagaskóla
Amíra Snærós Jabali, Elín Richter, Sindri Bjarkason og og skólasystkini þeirra börðust hetjulega fyrir því að skólasystir þeirra, Zainab Safari og fjölskyldu hennar, yrðu ekki vísað úr landi. Íslensk stjórnvöld höfðu í tvígang hafnað því að taka mál fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar og þar með að skoða möguleikann á því að þau ættu þess kost að setjast að hér á landi. Skólasystkinin neituðu að gefast upp og fjölskyldan fékk að lokum dvalarleyfi.

Sigurþóra Bergsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Sigurþóra Bergsdóttir framkvæmdastjóri
Sigurþóra Bergsdóttir setti á árinu á laggirnar stuðningssetur fyrir ungt fólk, Headspace. Sigurþóra missti son sinn Berg Snæ Sigurþórsson, sem svipti sig lífi fyrir þremur árum í kjölfar kynferðisofbeldis. Sigurþóra átti frumkvæði að stofnun stuðningssetursins með það að markmiði að auka þjónustu við ungt fólk sem dettur á milli kerfa í samfélaginu og á erfitt með að finna heildstæða þjónustu, og stuðla þannig að því að ungt fólk í vanda fái aðstoð fyrr.

Slysavarnafélagið Landsbjörg
Sjálfboðaliðar slysavarnafélagsins Landsbjargar eru ávallt boðnir og búnir til að aðstoða fólk í neyð. Félagið er þverskurður af íslensku þjóðinni og innan raða þess eru einstaklingar af öllum kynjum, úr öllum starfsstéttum, alls staðar á landinu. Félagar Landsbjargar stóðu vaktina í óveðrinu sem geisaði yfir landið í desember, sem og í leitum að einstaklingum bæði í lok árs og byrjun ársins 2020.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -