Vítalía Lazareva upplýsir í samtali við Mannlíf að Þórður Már Jóhannesson, fráfarandi stjórnarformaður hjá Festi, hafi verið sá sem braut harkalegast á henni í sumarbústað Þórðar Más á sínum tíma. Hún segir Þórð hafa meinað henni að yfirgefa bústaðinn og þannig svipt hana frelsi í raun.
Málið kom upp á yfirborðið þegar Vítalía sagði frá því í samtali við Eddu Falak að fjórir landsþekktir athafnamenn voru naktir í heitum potti með henni í ótilgreindum sumarbústað. Hún segir ömurlegt ef satt reynist að Þórður Már Jóhannesson og Hreggviður Jónsson hafi átt hlut að máli við brotthvarf Eggerts Þórs Kristóferssonar framkvæmdastjóra frá Festi. Eggert hafi reynst henni vel.
Sjá einnig: Þögnin um brotthvarf Eggerts
Gull af manni
Vítalía Lazareva segir í samtali við Mannlíf að Eggert hafi reynst henni afar vel eftir að Þórður Már og Hreggviður, ásamt Ara Edwald fóru yfir öll mörk hennar í heitum potti í sumarbústað. „Ég hringdi í hann sjálf, einhvern tíma í janúar eða febrúar minnir mig og hann hlustaði alveg rosalega mikið á mig og ég talaði við hann alveg heillengi. Mig langar að koma því til skila að ég á honum alveg órúlega mikið að þakka og mér líður alveg rosalega illa yfir því að búið sé að bola honum út úr Festi, ef það er staðreyndin. Ég vil bara að hann viti að ég á honum alveg gífurlega mikið að þakka og hann er greinilega að standa með jafnréttinu, ekki bara í mínu máli heldur líka í KÍ málinu,“ sagði Vítalía og átti þá við gagnrýni Eggerts á stjórn Knattspyrnusambands Íslands í málum sem snéru að meintum kynferðisbrotum landsliðsmanna. Vítalía segir að stelpurnar í Öfgum, Eddu Falak og fleiri segja að Eggert sé mjög góður maður sem trúir þolendum. „Hann er að gera rétt og þess vegna er verið að refsa honum sem er svo rangt. Þess vegna skrifaði ég færsluna á Twitter,“ sagði Vítalía en hún skrifaði færslu fyrir stuttu á Twitter um málið. „Hann er bara gull af manni og hann sýndi mér stuðning og hlustaði á mig. Við töluðum saman í klukkutíma, hann vildi fá að vita hvað gerðist í sumarbústaðnum því Þórður Már var búinn að segja allt öðruvísi frá þessu á stjórnarfundi. Og hann sagðist trúa mér sem var mjög gott að heyra.“
Braut fjórum sinnum á henni
Fram kom í samtalinu við Vítalíu að Þórður Már hafi verið sá sem braut hvað mest á henni í sumarbústaðinum.
„Það má alveg koma fram að það var Þórður Már sem braut á mér manna mest. Það er Þórður, Ari og svo Hreggviður. Þórður braut á mér undir fjórum lagagreinum. Hann læsti mig inni, það er svona stórt hlið við sumarbústaðinn og ég vildi keyra í burtu en Þórður neitaði að opna hliðið en hann á sumarbústaðinn. Hann kom líka að mér þegar ég var í sturtu og bað mig um að glenna á mér klofið. Hann tróð fingri upp í endaþarminn á mér og svo þegar ég fór að sofa kom hann inn og tróð fingrum upp í leggöngin á mér. Hann er svo að dreifa sögusögnum af mér úti í bæ, að við Arnar séum byrjuð saman aftur og fleira sem er bara bull. Við Arnar erum bara vinir, tölum saman annað slagið en hann er líka vitni í máli mínu gegn hinum. “
Golfklúbburinn
Vítalía sagði blaðamanni Mannlífs frá því að fyrrverandi ástmanni hennar, Arnari Grant, hafi nú verið bolað út úr golfklúbbinum Stullarnir vegna stuðnings hans við Vítalíu en Hreggviður, Þórður Már og Logi Bergmann eru enn í klúbbnum.
„Logi, Hreggviður og Þórður fá allir að spila en Arnari var bolað út. Ég talaði við mennina sem eru yfir golfhópnum og spurði bara hvað væri í gangi og sagði að annað hvort spiluðu allir þessir menn með eða enginn þeirra. Þeir sögðust ætla að skoða þetta en svo heyrði ég í þeim aftur fyrir stuttu og þá sögðu þeir að hópurinn vildi ekki aðhafast neitt í málinu því hópurinn vildi ekki taka neinar hliðar. Þannig að þeir vilja leyfa mönnum, sem eru nú rannsakaðir af lögreglunni að spila en ekki Arnari. Við skulum átta okkur á því að Arnar braut ekki á mér kynferðislega, það kom ýmislegt upp á hjá okkur líka og ég er ekkert að verja Arnar neitt. Þannig að þeir eru að hlífa kynferðisafbrotamönnum.“