Nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík var kynntur í gær en samstarfssáttmálinn er sá lengsti í sögunni, eða 34 blaðsíður.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Fréttablaðið að samstarf milli flokkanna sé mjög áhugavert.
„Það hefur virst spenna á milli þeirra í þinginu. Þannig ef samstarf þeirra í sveitarstjórnum gengur vel gæti það haft áhrif á andrúmsloftið í þinginu líka,“ sagði Ólafur en ljóst er að allir flokkar hafa fengið að koma sínum málum á framfæri við gerð sáttmálans. Búist er við að ráðist verði í húsnæðisátak og úthlutunum á lóðum meðal annars á Ártúnshöfða, Úlfarsárdal, Kjalarnesi, Gufunesi og á Hlíðarenda. Þá er fyrirhugað að hefja gerð umhverfismats vegna Sundabrautar.