Ína Björg Hjálmarsdóttir, deildarstjóri Blóðbankans, hefur áhyggjur af lagerstöðu blóðbankans og segir stöðuna grafalvarlega. Telur hún að það vanti um helmingi meira á lager til þess að öryggi sé tryggt en fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær.
„Lagerstaðan er bara mjög léleg og þetta stefnir öryggi sjúklinga í hættu og þetta er staða sem við þurfum að vinna upp á næstu dögum til þess að geta annað þeirri eftirspurn sem upp kemur,“ sagði Ína og bætti við að um 270 einingar væru tíl á lager. „Við viljum eiga 400, 450, þá erum við nokkuð sátt. Þannig að við erum langt undir því.“
Blóðið fer að sögn Ínu að mestu leyti til krabbameinssjúklinga, einstaklinga sem gangast undir aðgerðir eða lendi í slysi. „Nú er fólk að fara í ferðalög. Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Þannig að þá fáum við fleiri slys. Þá fáum við meiri notkun og þá þurfum við að eiga nóg.“
Hægt er að nálgast allar frekari upplýsingar um blóðgjöf hér.