Bandarísk yfirvöld hafa gert þá kröfu til ferðalanga síðan landamærin voru opnuð á ný að allir þeir sem heimsæki landið framvísi neikvæðum niðurstöðum úr Covid-19 prófi. Þessi regla hefur verið þyrnir í augum stjórnenda bandarískra flugfélaga sem telja þetta draga úr áhuga útlendinga á að heimsækja Bandaríkin, samkvæmt frétt Bloomberg.
Ráðamenn í Hvíta húsinu stefna hins vegar að því síðar í dag að tilkynna að krafan um Covid-19 próf fyrir Bandaríkjareisu verði felld niður aðfararnótt sunnudagsins.
Íslendingar á leiðinni vestur yfir haf geta því andað léttar því frá og með sunnudeginum verður hægt að ferðast án þess að gangast undir kórónuveirupróf fyrir brottför.