Söngvarinn Valdimar Guðmundsson segist þurfa að monta sig aðeins í nýrri færslu á Twitter þar sem hann er búinn að missa 30 kíló síðan hann steig síðast á vigt í sumar. Hann segist ekki hafa farið öfgafullar leiðir til að ná þessum góða árangri.
„Bara aðeins hollara mataræði og kærasta sem stoppar mig þegar mig langar að panta pizzu þegar ég nenni ekki að elda,“ útskýrir Valdimar.
Valdimar hefur í gegnum árin talað opinskátt um matarfíkn sem hann glímir við, meðal annars í viðtali við Einkalífið á Vísi. Þar lýsti hann matarfíkn sem „spes“ fíkn.
Valdimar ræddi lífsstíl sinn einnig í viðtali við Vikuna árið 2012. Þá hafði hann nýlega byrjað að mæta í ræktina og misst um 30 kíló. Þá sagði hann markmiðið vera að komast í kjörþyngd.
„Ég finn fyrir miklum stuðningi og fólk ber frekar umhyggju fyrir mér en að vera með fordóma. Ég er heppinn að hafa alltaf átt góða vini og verið vel liðinn sem manneskja. Ég lenti aldrei í einelti, var kannski strítt pínulítið, en það var aldrei neitt alvarlegt. Ég hef alltaf verið feitur,“ sagði Valdimar í viðtali sem birtist í Vikunni.
Núna þarf ég aðeins að monta mig.
Ég steig núna á vigt í fyrsta skipti síðan í sumar og sá að ég er búinn að missa 30 kíló. Og í því fólust engar öfgar. Bara aðeins hollara mataræði og kærasta sem stoppar mig þegar mig langar að panta pizzu þegar ég nenni ekki að elda.
— Valdimar Guðmundsson (@ValdiMumma) January 20, 2020