Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

„Mig langar ekki að deyja en ég verð að gera það með reisn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Alma Geirdal greindist með brjóstakrabbamein aðeins 38 ára gömul. Eftir meðferð var hún krabbameinslaus í tæp tvo ár en þá greindist hún aftur og í þetta sinn er engin lækning. Alma hefur fengið uppgefinn tímann sem hún á eftir, hún er í líknandi lyfjameðferð á heimili sínu og segist kveðja sátt þegar kallið kemur. Í viðtali við Mannlíf ræðir hún baráttuna, fordómana sem hún verður fyrir í heilbrigðiskerfinu og krabbameinslyfið sem olli miklum kvölum og aukaverkunum, en gerði henni ekkert gagn.

„Viltu kaffi?“ spyr Alma þegar við setjumst við eldhúsborðið á notalegu heimili hennar í Hafnarfirði. Heimilishundurinn leggst á fætur blaðamanns, sáttur við gestinn sem er kominn í heimsókn og spjallið hefst á því að spyrja hvernig Ölmu líði, akkúrat hér og nú.

„Mér líður ekkert rosalega vel í dag. Almennt er ég ótrúlega brött andlega, ég hef einhvern veginn náð að vera mjög jákvæð í gegnum þetta þó að ég sé raunsæ,“ segir Alma. „En líkamlega líður mér ekki vel, ég fór í aðgerð í desember og er að jafna mig eftir hana, þá lömuðust smágirnin í mér. Og í morgun fékk ég þær fréttir að meinið hafi stækkað. Í dag er krabbameinið búið að dreifa sér milli vöðva á svæðinu þar sem vinstra brjóstið var, tvö mein eru í hægra lunga og nokkur í hægri holhönd. Þetta er fjölgun á æxlum á sex vikum, þannig að andlega hliðin er ekki mjög sterk í dag. Líkamlega líður mér aldrei vel, eftir að þetta ferli hófst, þessi önnur atrenna,“ segir Alma af yfirvegun og bætir við að hún eigi aldrei verkjalausan dag, og í raun meti hún verkina á mælikvarðanum einn upp í tíu.

„Ég er á sterkjum lyfjum sem hjálpa gegn sársauka, en ég á aldrei verkjalausa mínútu. Ég er aldrei undir fimm, og yfir daginn er ég svona milli sex og átta,“ segir hún og vísar þar í fyrrnefndan mælikvarða. „Svo bættist þessi aðgerð við, ég er með stóran skurð eftir hana, 18 spor bara á maganum. Ég hef verið með æxli í bringunni á milli brjóstvöðva, það hefur verið að stríða mér og meiðir mig mikið núna.“

Sjá einnig: Alma var látin taka gagnslaust lyf í 18 mánuði

Krabbameinið einfaldlega óheppni

- Auglýsing -

Þegar Alma talar um meinið sem hún býr með, krabbameinið sem tekur sér sífellt meira pláss í líkama hennar, talar hún iðulega um fyrri og seinni atrennu. Sú fyrri hófst í lok árs 2017 þegar Alma greindist með krabbamein í vinstra brjósti.

„Það byrjaði þannig að mig fór að verkja svo rosalega í brjóstið, slíkt er mjög sjaldgæft, en ég hummaði það af mér í mánuð að fara til læknis. Hann fann ekkert, en pantaði tíma í myndatöku hjá Krabbameinsfélaginu. Ég frestaði tímanum um mánuð, það liðu tveir og hálfur mánuður frá fyrsta verk og þar til ég greindist í október 2017 og þá var æxlið orðið sex sentimetra stórt.“

„Mér fannst ég öðlast frelsi, ég var mjög ung þegar ég greindist, mjög ung þegar ég missti brjóstið, en þarna tók við algjört frelsi.“

Hjá Ölmu er engin ættarsaga um brjóstakrabbamein og enginn ættingi hafði greinst með krabbamein, fyrir utan afa hennar sem greindist háaldraður með blöðruhálskirtilskrabbamein. Hún hafði heldur ekki farið í neinar skoðanir enda konur fyrst boðaðar í brjóstamyndatöku þegar þær verða fertugar.

- Auglýsing -

„Ég fékk hnút í mjólkurveginn fyrir 20 árum þegar ég var með dóttur mína á brjósti og það er það eina sem hvarflar að mér að geti verið einhver skýring,“ segir Alma. „Læknar hafa ekkert fundið sem útskýrir hvernig krabbameinið kom til og segja það bara óheppni.“

Alma fór í skurðaðgerð mánuði eftir greiningu þar sem vinstra brjóstið var fjarlægt. Síðan tók við lyfjameðferð sem hún varð mjög veik af, og endurhæfing. „Það tók mig 6-8 vikur að jafna mig, ég fór í 16 skipta lyfjameðferð sem gekk herfilega og ég var mikið veik. En síðan fór ég af fullum krafti í endurhæfingu og á fjölda uppbyggjandi námskeiða hjá Ljósinu, Krafti og Krabbameinsfélaginu, til að byggja upp sálina og líkamann, svo ég gæti mætt aftur út í lífið og á vinnumarkaðinn sem sterkari einstaklingur.“

Að lokum fékk Alma þann úrskurð að hún væri laus við krabbameinið. „Mér fannst ég öðlast frelsi, ég var mjög ung þegar ég greindist, mjög ung þegar ég missti brjóstið, en þarna tók við algjört frelsi.“

Lestu viðtalið í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Alma skrifar um baráttu sína í Facebook-hópnum: Alman vs. cancer. Þeir sem vilja styðja Ölmu geta lagt inn á reikning : 0130-05-064210, kennitala : 060979-3759.

Sjá einnig: „Börnin dæla í mig jákvæðum styrk“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -