Guðmundur vill miklu betri leigumarkað á Íslandi: „Það er ákveðið kúrekamentalitet ríkjandi“

top augl

Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er enginn annar en Guðmundur Hrafn Arngrímsson landslagsarkitekt og skipulagsfræðingur, helluhvíslari, möndluristari og formaður Samtaka leigjenda.

 

Guðmundur Arngrímsson
Ljósmynd: Aðsend

Guðmundur, sem sjálfur er á leigumarkaði, hefur skellt sér á bólakaf í þessi mál með aukinni eftirspurn á einskonar regluverki utan um rétt leigutaka og rými leigusalans.

Mun skilvirkari leigukerfi í nágrannalöndunum

Guðmundur segir í viðalinu frá þrælskipulögðu og skilvirku leigukerfi í öðrum löndum á borð við Danmörku, Noreg, og Finnland, svo eitthvað sé nefnt. Í raun eru einhverskonar kerfi eða regluverk í flestum Evrópulöndum, sem heldur utan um þessi mál og skilar fyrir vikið af sér heilbrigðum og vel hagnýtum leigumarkaði, bæði fyrir leigusalann og leigutakann.

Gunnar spyr hann hvort að ekki sé vonlaust að glíma við þessi há kapitalísku öfl.

„Nei það er það ekki því við erum með svo margar góðar fyrirmyndir af leigumarkaði í norðurlöndunum, alls staðar í Norður-Evrópu og jafnvel í Iberuskaganum og á Ítalíu. Á stöðum þar sem leigumarkaðurinn er bara í jafnvægi, blússandi gangur á fasteignamarkaði en þar eru bara leigjendur varðir. Þar er regluverk sem takmarkar óeðlilegar hækkanir á húsaleigu, réttindi leigjenda eru meiri sem þýðir að þú getur búið lengur í íbúðinni. Þú ert ekki með þessa tímabundnu árssamninga eins svo oft er hér.“

Villta vestrið

Guðmundur vill meina að á Íslandi ríki hálfgerð kúrekastemning þar sem lög er varða rými til hækkunar á leigu séu svo opin að leigusalinn geti túlkað þau sér í vil. Leiguverð hefur hækkað gríðarlega undanfarið, sem margir vilja meina að sé í engu samræmi við þróun í nágrannaríkjum sem og að forsendur hins frjálsa markaðar séu allt aðrar víða erlendis í þessum málum.

„Það er ákveðið kúrekamentalitet ríkjandi, þetta er tiltölulega fámennur hópur svona kúreka í þessu en það er af því að við erum með óregluvæddan leigumarkað. Ef við værum með regluvæddan leigumarkað sem tæki fyrir óeðlilegar hækkanir á húsleigu, við myndum bara finna eitthvað viðmið, getum fundið viðmið út frá verðlagsþróun, látið hana stýra eða viðmið sem eru hlutfall af lágmarkslaunum. Í Danmörku er meðalleiga á 100 fermetra íbúð í Kaupmannahöfn um 37% af lágmarkslaunum, hérna er það 69%. Meðalleiga á 100 fermetra íbúð í Reykjavík árið 2020 var 212 þúsund og þá voru lágmarkslaun 330 þúsund.“

Guðmundur talar um að hlutfall þeirra á leigumarkaði hafi hækkað gríðarlega síðustu ár og að við séum hægt og rólega að færa okkur meira og meira úr því að kaupa okkur fasteignir yfir í leigumarkaðinn sem hefur ekki upp á mikið að bjóða hér á Íslandi. Leigusalan er búin að færast úr höndum margra einkaaðila yfir í fjársterk fasteignafélög, ýmis í einkaeigu eða í eigu hluthafa og þar geti félögin nánast stýrt sínum hækkunum sökum neyðar fólks á fasteignamarkaði. Lítið sem ekkert er til af eignum í almennri sölu og svo hefur fasteignarverð rokið upp úr öllu valdi síðustu ár og nánast ógjörningur fyrir ungt fólk í dag að kaupa sér 2-3 herbergja íbúð nema að standa uppi með minnst 15 milljóna króna útborgun sem fæstir hafa möguleika á að afla sér.

Segir Guðmundur að þess vegna fari fólk út á leigumarkað og með tímanum eftir því sem fólk eldist á leigumarkaði, festist fólk þar og á sér enga möguleika á því hvorki að kaupa sér íbúð né koma sér í örugga leigu þar sem afborganir eru í einhverju samræmi við hvað íbúðareigendur eru að borga oftast í afborganir á sínum húsnæðislánum. Og hvað þá með íbúðarverð? Hvernig eiga leigusalar að fá sanngjarna endurgjöf sem amk rekur fasteignina að stóru leiti?

Hættulegt heilsunni

„Það er náttúrulega ekkert vit í því að vera með fólk út á leigumarkaðnum sem er kannski að borga 300 þúsund á mánuði í leigu en synja því um 180 þúsund króna greiðslumat.“

„Það er eitthvað óeðlilegt með það að svona tiltölulega vel þénandi fjölskyldufólk, eldra en 34 ára, bara kemst ekki burtu úr þeim aðstæðum sem það vill alls ekki vera í. Við vitum hvað við köllum sambönd sem þér líður illa í og þráir að komast úr en getur það ekki. Þetta er óheilbrigt og skapar allskonar vandamál, skapar streitu, kvíða, áfallastreitu. Þetta skapar óöryggi hjá börnunum. Leigjendur eru að flytja oft og títt. Tilfinningarlegt óöryggi í æsku hefur afgerðandi áhrif á geðheilsu fólks í framtíðinni. Við getum einfaldlega ekki boðið fólki og sérstaklega börnum upp á þetta.“

Þetta magnþrungna og upplýsandi viðtal má heyra og sjá hér á spilaranum fyrir neðan sem og að Þvottahúsið finnst á öllum helstu streymisveitum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni