Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags SÞ: „Ég vil setja mitt mark á veröldina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var í nokkur ár hjá UNICEF á Íslandi og var svo heppin að ég fékk að prófa mörg ólík verkefni. Ég vann bæði í síma- og þjónustuveri og naut þess að tala við alls konar fólk. Svo sá ég um neyðarsafnanir og Sannar gjafir og fékk þá heilmikla innsýn í vefsíðuvinnu, bakenda og skýrslugjöf. Með Sönnum gjöfum UNICEF fékk ég að vera skapandi í herferðarpælingum fyrir mismunandi tilefni, svo sem afmæli, jól, páska og bolludaginn. Einnig tók ég svo að mér rekstur símaversins, þar sem þá voru 14 manns, en mér þótti frábært að vinna með ungu, efnilegu fólki með áhuga á mannúðarstarfi, en það var virkilega skemmtilegt og fjölbreytt,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna.

Þau heyrðu af Íslendingnum með sérfræðiþekkingu í fjáröflun í gegnum Genf.

„Maðurinn minn fékk svo óvænta stöðu hjá Marel í Slóvakíu svo að við ákváðum að taka stökkið og flytja. Það var samt erfitt að því leytinu til, að ég var virkilega ánægð í vinnunni. Það höfðu orðið miklar breytingar hjá landsnefnd UNICEF í Slóvakíu og þau heyrðu af Íslendingnum með sérfræðiþekkingu í fjáröflun í gegnum Genf og ég fékk fljótlega hlutverk í Bratislava. Það var alls ekki planið upphaflega. Ég var orðin ófrísk á þessum tíma, en vildi alls ekki missa af þessu góða tækifæri svo ég tók að mér stöðu sem verkefnastjóri í fjáröflun og kynningum. Fjáröflunarumhverfið er þó allt öðruvísi á þessum slóðum svo það var talsverður lærdómur. Ég vann þar til ég var gengin 34 vikur á leið, en almennt er ekki mælt með að konur vinni lengur en það á meðgöngu þar ytra. Við vorum úti í þrjú ár og ég naut þess að búa þar og sérstaklega að geta verið heima fyrstu tvö árin með yngstu dótturina.

Vala Karen Viðarsdóttir
Fjölskyldan í Bratislava 2020.

Á þriðja árinu okkar úti var ég farin að líta pínu í kringum mig svo sem varðandi hver yrðu mín næstu skref. Mér bauðst svo að ganga inn í framkvæmdanefnd Women Power, en ég heillaðist alveg af hugsjóninni og vinnu samtakanna og áherslu á að vinna í grasrótinni. Hún Anna Elísabet, stofnandi samtakanna, er algjör kjarnakona, en hún stofnaði leikskóla fyrir börn í þorpinu Bashay í Tansaníu. Samhliða því hefur hún svo í samstarfi við konur í þorpinu hlustað á þarfir þeirra og þannig urðu samtökin til, en þau snúa að valdeflingu kvenna og forsenda þess er að þær geti elt drauma sína er að börnin séu með örugga dagvistun. Stofnaður var lánasjóður þar sem konur geta sótt um framkvæmdalán og hefur hann orðið til þess að konur hafa farið í margs konar rekstur meðal annars að rækta svín og korn og opna hárgreiðslustofu. Aukin tækifæri fyrir konur ýta undir jafnrétti og það skilar sér svo sannarlega til samfélagsins. Næst á dagskrá er að setja á laggirnar frumkvöðlanámskeið og þjálfun fyrir konur og svo vonandi kvennaferð sem hefur verið á döfinni í nokkurn tíma. Það er fallegt samvinnuverkefni þar sem íslenskar konur í atvinnulífinu fá tækifæri til þess að deila sérfræðiþekkingu sinni með konum í Tansaníu og öfugt.“

Fræðsla og menntun er lykillinn út úr fátæk.

Hver er markmiðið og draumurinn varðandi þetta?

„Það má segja að það sé bara að opna á samtalið og brúa bilið milli samfélaga og skapa þannig tengingar milli fólks í alþjóðasamhenginu. Fræðsla og menntun er lykillinn út úr fátækt og ég vil setja mitt mark á veröldina og skapa pláss fyrir alla. Draumurinn er að einn daginn verði lífið á jörðinni okkar orðið sanngjarnara fyrir alla og sjálfbærara. Að mannkynið geti lifað í sátt og samlyndi við umhverfið og hvert annað,“ segir Vala Karen sem er mannfræðingur að mennt. „Ég endaði í mannfræðinni eftir að hafa prófað bæði lögfræði og hjúkrunarfræði, enda sá ég mig alltaf vinna með fólki eða fyrir fólk. Í mannfræðinni lærir maður svo ótrúlega margt, bæði samskipti og hegðun mannsins í tímans rás og ólíkum samfélögum í hnattrænu samhengi. Mannfræðin kennir manni að sjá hluti út frá ólíkum sjónarhornum og sérstaklega sjónarhorni annarra. Ég tel að ég muni alla tíð búa að þeim grunni sem mannfræðin gaf mér.“

Sinna fræðslu

- Auglýsing -

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var stofnað árið 1948, stuttu eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna. Fyrsti forseti þess var Ásgeir Ásgeirsson svo að það á sér langa sögu, enda gamalt og rótgróið félag sem var stofnað af áhugasömum aðilum um SÞ og skref Íslands í þátttöku á alþjóðavettvangi. „Markmiðin hafa eflaust breyst í gegnum tíðina, en það má segja að það sé enn rekið af áhuga og ástríðu á alþjóðlegum málefnum. Mér finnst gott að líta á félagið sem eins konar brú milli almennings og stjórnvalda í tengslum við stofnanir SÞ, alþjóða- og þróunarsamvinnu Íslands og heimsmarkmiðin. Við sinnum fræðslu í skólum, fyrir almenning, fyrirtæki og samtök um öll þessi málefni sem falla þar undir.“

Ég er opin í samskiptum og elska hreinlega að vinna með fólki.

Vala Karen hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins í tæpt ár. „Ég fékk tímabundna ráðningu þar sem forveri minn fór í ársleyfi. Það hefur verið mikill lærdómur fólginn í vinnu minni síðastliðið ár og ég er bæði þakklát og stolt af að stjórn félagsins hafi séð hvað ég hef fram að færa og boðið mér áframhaldandi starf. Ég tel að ég hafi mikla orku og kraft til þess að keyra félagið inn í breytta tíma. Ég er opin í samskiptum og elska hreinlega að vinna með fólki og brenn fyrir alþjóðamálum, sem er gott þar sem ég fæ að hitta fólk úr öllum áttum og vinna að málefnum sem virkilega skipta mig máli. Ég hef alltaf haft áhuga á málefnum sem snúa að heimssamfélaginu, en það var í starfi mínu hjá UNICEF á Íslandi sem ég raunverulega fann fyrst að ég væri á réttum stað.“

Vala Karen Viðarsdóttir
Í vinnuferð fyrir utan Félag SÞ í Danmörku ásamt norrænum samstarfsfélögum.

Mikil áhrif líkamlega og andlega

- Auglýsing -

Vala Karen er frá Ísafirði og segir hún að það hafi mótað hana mikið að vera frá litlu bæjarfélagi; hún nefnir umhverfið í kringum Ísafjörð og nálægðina við fjöruna og fjöllin. Hún talar líka um frelsið.

„Foreldrar mínir fluttu þangað áður en ég fæddist, en þau eru frá Siglufirði og Ólafsfirði. Ég ólst því upp langt frá nánustu ættingjum og hitti ömmur og afa sjaldan. Ég lærði því snemma að meta þessar fáu stundir og það var gott veganesti, sérstaklega þegar við fluttum til Slóvakíu. Þó svo að ég hafi ekki í huga að búa aftur úti á landi þá fylgir þessi lífsreynsla manni alltaf og mér þykir vænt um uppeldið mitt í samfélaginu fyrir vestan og elska að heimsækja heimahagana, en foreldrar mínir búa þar enn.“

En að ganga með þau hefur alltaf haft mikil áhrif á mig líkamlega og andlega.

Framkvæmdastjórinn er gift, þriggja barna móðir. „Eitt af því erfiðasta sem ég hef gert var að ganga í gegnum meðgöngu. Ég er svo heppin að eiga þrjú börn og að fæða þau var ekkert mál, en að ganga með þau hefur alltaf haft mikil áhrif á mig líkamlega og andlega.“

Tómas Valgeirsson 692 7418

Hvað með áhugamál konunnar sem alþjóðamálin kalla á?

„Mín helstu áhugamál eru ferðalög, hreyfing og að verja tíma með vinum og fjölskyldu. Við ferðumst mikið saman, fjölskyldan, og leggjum mikið upp úr því að börnin upplifi heiminn með okkur. Einnig erum við öll miklir fjörkálfar svo að við elskum að hafa eitthvað fyrir stafni og reynum að rækta vina- og fjölskyldubönd eins mikið og við getum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -