Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Kristín aðstoðar pör í paravanda – „Aldrei gert neitt jafnskemmtilegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristín Tómasdóttir, verðandi fjölskyldumeðferðarfræðingur, er að vinna að handbók fyrir hjón sem byggir á reynslu raunverulegra hjóna og fræðilegri nálgun. Samhliða bókaskrifum aðstoðar hún pör í vanda.

Kristín segist hafa mikinn áhuga á öllu því er við kemur ástinni. Eftir að hafa stundað nám í stjórnun og stefnumótun ákvað hún að fara í nám sem hún hefur raunverulegan áhuga á. „Af undarlegum ástæðum lærði ég svo stjórnun og stefnumótun í opinberri stjórnsýslu og útskrifaðist sem stjórnsýslufræðingur þrátt fyrir að áhugi minn væri alfarið helgaður parsamböndum, skilnuðum og öllu því er við kemur ástinni. Ég horfðist því í augu við sannleikann fyrir tveimur árum síðan, settist á skólabekk á ný og lærði fjölskyldumeðferð þaðan sem ég útskrifast í vor. Samhliða hef ég verið svo heppin að fá að aðstoða nokkur pör í sínum paravanda og ég hef aldrei gert neitt jafnskemmtilegt,“ segir Kristín sem stefnir svo á doktorsnám í framhaldinu.

Paravandi getur reynst samfélaginu dýr

Þegar Kristín er spurð út í hvort pör séu almennt dugleg að leita sér hjálpar þegar vandamál koma upp í sambandinu segir hún: „Já, og nei. Já, að því leyti að pör leita sér aðstoðar og það er orðið nokkuð viðurkennt og vænlegt til árangurs. Aftur á móti er það dýrt að leita sér hjálpar við paravanda og því ekki allir sem hafa tök á því þrátt fyrir að viljinn sé fyrir hendi.“

Kristín segir að þess vegna væri óskandi að fjölskyldumeðferð yrði niðurgreidd af hinu opinbera. „Ég skrifaði einmitt meistararitgerð í stjórnsýslufræðum um hvað það væri hagstætt fyrir bæði ríkiskassann og fjölskyldubókhald landsmanna ef fjölskyldumeðferð yrði niðurgreidd af hinu opinbera.

„…það væri best ef fólk myndi fá fyrirbyggjandi hjálp við að koma í veg fyrir að parsambandið þróist í neikvæða átt.“

Paravandi er nefnilega reglulega dýr samfélaginu og brýst út á óteljandi vegu. Það sem við þó vitum er að fólk er að leita sér hjálpar þegar vandinn er orðinn meiri en hann þyrfti mögulega að verða. Þetta er eins og með svo ótrúlega margt, það væri best ef fólk myndi fá fyrirbyggjandi hjálp við að koma í veg fyrir að parsambandið þróist í neikvæða átt. Þar eigum við þó enn þá langt í land.“

- Auglýsing -

Misskilningur oft sökudólgurinn

Kristín segir þau vandamál sem geta komið upp í parasamböndum vera eins ólík og þau eru mörg.

„Öll parsambönd eru ólík og þó svo að vandinn geti verið keimlíkur þá er það misjafnt hvaða lausnir henta hverju og einu pari. Það sem ég get þó sagt er að margir eiga í vanda sem rekja má til misskilnings. Misskilnings, sem svo aftur má rekja til þess að fólk er ekki að tala nægilega mikið saman. Algengur misskilningur er til dæmis þegar báðir aðilar hafa ákveðnar hugmyndir um hver á að gera hvað en gleyma að ræða þessar hugmyndir. Þegar framkvæmdin verður svo á annan veg en þau höfðu gert sér í hugarlund getur allt soðið upp úr. Vegna þessa snýst parameðferð oft um að hjálpa fólki að tala saman, búa til nýja samninga sín á milli og setja óyrt mál í orð,“ útskýrir Kristín.

„Það er til margt fólk sem býr saman, deilir fjárhag, eignast saman börn, sefur í sama rúmi og stundar kynlíf en gleymir vináttunni.“

- Auglýsing -

Aðspurð hver galdurinn að góðu parasambandi sé svarar Kristín: „Þetta er stór spurning og fer svarið alveg eftir því hver á í hlut. Góður galdur fyrir eitt par getur reynst öðru pari algjör pest. Aftur á móti hafa rannsóknir sýnt að ákveðnar breytur eru vænlegri en aðrar í parsamböndum. Þar má til dæmis nefna vináttu, traust og að njóta samveru hvort annars. Við myndum kannski ætla að þetta væri „common sense“ en svo er alls ekki. Það er til margt fólk sem býr saman, deilir fjárhag, eignast saman börn, sefur í sama rúmi og stundar kynlíf en gleymir vináttunni. Bæði sorgleg og skrítin staðreynd, en hún segir okkur að það að rækta vináttuna getur aukið verulega líkurnar á góðu parsambandi til framtíðar.“

Kristín bentir áhugasömum á Facebook-síðu sína Hjónabandssæla. „Svo tek ég við tímapöntunum í parameðferð á netfangið [email protected].“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -