Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Öfgar, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands hafa skilað inn sameiginlegri skuggaskýrslu til nefndar sem starfar á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Kvennasáttmálans).
Nefndin undirbýr nú fund þar sem fulltrúar íslenska ríkisins munu sitja fyrir svörum um framkvæmd Kvennasáttmálans.
Útrýma mismunun
Framkvæmd Íslands á Kvennasáttmálanum verður tekin fyrir á fundi nefndarinnar í Genf í febrúar 2023. Þá býðst frjálsum félagasamtökum að skila inn svokallaðri „skuggaskýrslu,“ þar sem bent er á hvað betur má fara í starfi ríkisins til að útrýma mismunun gagnvart konum.
Hægt er að lesa nýjustu skýrslu íslenska ríkisins hér.
Undirritaður en ekki innleiddur
Ísland undirritaði Kvennasáttmálann (e. CEDAW: Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women) á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 1980, en hann var fullgiltur af Alþingi 1985 eftir mikinn þrýsting frá kvennasamtökum. Samningurinn hefur þó ekki enn verið innleiddur í íslensk lög. Í dag eru 189 ríki aðilar að sáttmálanum.
Kvennasáttmálinn inniheldur 30 ákvæði og inngangsorð, sem eru grunnreglur um jafnrétti og áætlanir ríkja til að koma í veg fyrir mismunun gegn konum. Reglulega eru aðildarríki að sáttmálanum kölluð á fund nefndarinnar sem hefur eftirlit með því að aðgerðir þeirra, áætlanir eða lagasetningar samræmist Kvennasáttmálanum. Fyrir þessa athugun skila ríki inn formlegri skýrslu um framkvæmd á ákvæðum samningsins.
Undirfjármagnaður málaflokkur
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að:
- Hækka þarf fjármagn fæðingarorlofssjóðs. Síðan fjármagn til sjóðins var lækkað hefur hlutfall feðra sem taka fæðingarorlof einnig lækkað.
- Samtökin hvetja stjórnvöld til þess að gera kynjafræði að skyldufagi á öllum stigum skólakerfisins.
- Samtökin lýsa yfir áhyggjum yfir því að skortur á fjármagni kemur í veg fyrir að stjórnvöld geti sinnt skyldum sínum í jafnréttismálum. Má þar nefna að jafnréttisstofa hefur verið undirfjármögnuð til fjölda ára.
- Samtökin lýsa einnig yfir áhyggjum þegar kemur að réttarkerfinu á Íslandi vegna lágs hlutfalls sakfellinga, hvernig gerendur geta beitt réttarkerfinu gegn þolendum sínum, langs málsmeðferðartíma, vægra refsinga og fyrningarfrests á kynferðisbrotum.
- Samtökin hvetja stjórnvöld til þess að innleiða Kvennasáttmálann í íslensk lög.