Arctic Therapeutics ehf., sem rekur hraðprófunina covidtest.is, velti alls 399,7 milljónum króna í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins var 127,2 milljónir króna en félagið hafði í fyrsta sinn tekjur á því ári. Eigendur félagsins eru Hákon Hákonarson, David H. Moskiwitz og Philip Harper en þeir síðarnefndu eru báðir Bandaríkjamenn.
Íslenska ríkið greiddi Arctic Therapeutics fjögur þúsund krónur fyrir hvert hraðpróf fyrir einstaklinga búsetta hér á landi. Greiðslurnar voru felldar niður þann 1. apríl síðastliðinn en þá höfðu allar takmarkanir, vegna heimsfaraldursins, verið teknar úr gildi. Í dag rukkar fyrirtækið tæpar sjö þúsund krónur fyrir hraðpróf en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, sem fjallaði um málið, eru það að mestu leyti ferðamenn sem nýta sér prófin.