Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-8.2 C
Reykjavik

Listamaðurinn og dómstóll götunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tekur þú undir þegar þú heyrir I Believe I Can Fly með R. Kelly í útvarpinu? Ertu búin/n að horfa á Usual Suspects í fimmta sinn? Færðu samviskubit yfir að hugsa hlýlega til The Cosby Show? Velkomin/n í hópinn.

Fyrir nokkru stóð ég langa stund með störu á nýuppsettar bókahillurnar. Þær svignuðu undan magninu og það lá fyrir að grisja. Sumar bækur var auðvelt að láta fara, aðrar erfiðara. Og þarna lá hún, mitt í einum bunkanum, síðasta og erfiðasta ákvörðunin: Annie Hall eftir Woody Allen. Kannastu við þetta? Að vera með kveikt á útvarpinu og fá pínu sting í magann þegar Thriller fer af stað? Að bölva því inni í þér að Kevin Spacey fékk ekki að klára House of Cards og skammast þín um leið?

Menn hafa lengi freistað þess að svara spurningunni: Er hægt að skilja listina frá listamanninum? En hún hefur ef til vill aldrei verið jafnáleitin og í kjölfar #meto-byltingarinnar. Hver stjarnan á fætur annarri hefur verið látin svara til saka fyrir dómstól almenningsálitsins síðustu misserin. Fyrirbærið hefur verið kallað „call-out culture“ eða „cancel culture“; „útskúfunarmenning“ á íslensku. Fyrirbærið má eflaust rekja til margra þátta, m.a. þeirrar staðreyndar að þau mál sem um ræðir rata allt of sjaldan til hefðbundinna dómstóla. Gerendur úr afþreyingariðnaðinum eru sjaldnast látnir svara til saka og sæta ábyrgð. En svo blöskrar fólki einfaldlega, og útskúfunarmenningin; að neita að horfa á myndir eftir Roman Polanski eða hlæja að Louis C.K., eru ein leið til að láta vanþóknun sína í ljós.

En hvar á að draga mörkin?

„Er nóg að vera ömurleg manneskja?“ spyr t.d. Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands, en hann verður meðal frummælenda á málþingi Siðmenntar sem haldið verður kl. 14 í dag undir yfirskriftinni „Má njóta níðinga?“ Arnar Eggert segir svarið hafa verið já í denn en staðan sé önnur í dag. „Þetta er tiltölulega nýlegt fyrirbæri, það er einhver viðhorfsbreyting sem veldur þessu. Tökum bara Michael Jackson sem dæmi; maður heyrir hann sjaldnar í útvarpinu. Hann hefur verið tekinn úr jöfnunni, finnst mér einhvern veginn.“

Arnar Eggert Thoroddsen.

 „Það er engin stemning fyrir honum lengur“

- Auglýsing -

Jackson hefur, eins og frægt er orðið, verið ásakaður um barnaníð gegn ungum drengjum. Arnar Eggert tekur annað frægt dæmi, fyrrnefndan Woody Allen, sem hefur bæði verið sakaður um að hafa misnsotað barnunga dóttur sína og gagnrýndur fyrir að hefja ástarsamband við tvítuga dóttur Miu Farrow þegar hann var sjálfur 56 ára. Allen kynntist Soon Yi þegar hann hóf samband við Farrow árið 1980. Soon Yi var þá 10 ára.

Arnar Eggert segir fólk skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að því að svara spurningunni um aðskilnað listarinnar og listamannsins en fólk gangi mislangt í því að sniðganga þá sem þeim þykja hafa misboðið almennu siðferði. „Ég finn þetta með Woody Allen, það er engin stemning fyrir honum lengur. Ef ég stend í hóp og fer að vitna í Woody Allen fæ ég bara svipinn. Þetta er dálítið athyglisverð breyting. En þetta er rosalega flókið mál því síðan þurfum við að fara að tala um hverjir eru þá inni og hverjir úti. Fá menn séns ef þeir eru rosagóðir listamenn? Hvað gerðist ef það kæmist upp að Steven Spielberg væri raðnauðgari?“

„Ég get alveg horft á myndirnar hans en … það er að fjara undan honum.“

Þetta er eitt af þeim vandamálum sem blasir við þegar rætt er um útskúfunarmenninguna. Skiptir máli hversu alvarlega þú braust af þér? Ef við erum sammála um að útskúfa þeim sem nauðga, hvað þá með þá sem beita heimilisofbeldi? Skiptir máli hvort þú gengur einu sinni í skrokk á maka þínum eða hvort þú gerir það ítrekað? Ætlum við að hætta að horfa á myndir með frægum leikara af því að hann hefur verið ásakaður um kynferðisofbeldi, eða eigum við að bíða þar til hann hefur hlotið dóm?

- Auglýsing -

 Að neyta er að verðlauna

Það er fátt auðveldara en að finna dæmi um listamenn sem sýndu af sér vafasama hegðun en njóta enn þá stöðu og virðingar. Caravaggio var morðingi, Bruckner var með táningsstúlkur á heilanum. Picasso, Burroughs og Lennon fóru allir illa með konurnar sínar. Jerry Lee Lewis, Elvis Presley, David Bowie og Jimmy Page voru þekktir fyrir að hafa verið með stúlkum á aldrinum 13 til 15 ára. Ja, verið með? Í dag kallast þetta barnaníð. Arnar Eggert játar því að enn í dag virðist sumir sleppa á meðan aðrir eru fordæmdir.

En hvað finnst honum sjálfum? Er hægt að aðskilja listina frá listamanninum? „Sumir segja já, sumir segja nei,“ svarar hann hugsandi. „Akkúrat á þessum tímapunkti veit ég það ekki og mér finnst þetta sérkennilegt. En ég viðurkenni að eins og með Woody Allen, þá er eitthvað að breytast innra með mér gagnvart honum. Ég get alveg horft á myndirnar hans en … það er að fjara undan honum.“ Hann ítrekar að málið sé flókið, enda bæði hugur og hjarta sem ráða för, ef svo má að orði komast. „Þegar þú færð upplýsingar um einhvern mann þá ferðu að hugsa en svo heyrir þú lag, og lag er lag, og á einhvern hátt er hægt að njóta þess fyrir það sem það er. En þegar þú færð forsögu þá gætir þú misst lystina á að hlusta … eða ekki.“

Þeir sem hafa talað fyrir því að neytendur láti listamenn og aðra í afþreyingariðnaðinum gjalda fyrir misgjörðir sínar hafa m.a. vakið athygli á því að með því að njóta og neyta listarinnar séum við að verðlauna listamanninn. Tökum Mel Gibson sem dæmi, sem bæði hefur orðið uppvís að heimilisofbeldi og gyðingahatri. Ef við ákveðum engu að síður að fara á nýjustu myndina hans stuðlum við bæði að velgengni hennar og hans. Hann fær e.t.v. prósentur af miðasölu og hlutverk í annarri mynd á grundvelli velgengni þessarar myndar. Til viðbótar við þau skilaboð að gjörðir hans hafa engar afleiðingar.

„Svo er þetta náttúrlega stundum bara hrein glæpamennska.“

Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að í sumum tilvikum er velgengnin bókstaflega ástæða þess að menn eru í stöðu til að brjóta af sér. Þar má nefna sem dæmi kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein og gamanleikarann Bill Cosby, sem báðir nýttu sér valdastöðu sína til að brjóta gegn konum og komast upp með það. Lokka þær með gylliboðum um frægð og frama og nota „miðasöluágóðann“ til að borga þeim fyrir að þegja.

 Umræðan sem slík sendir skilaboð

Arnar Eggert segir að jafnvel þótt menn verði seint á eitt sáttir um útskúfunarmenninguna sé mikilvægt að taka samtalið. „Það þarf að tala um þetta. Ég sem fræðimaður fer ekki á einn vagninn eða hinn. Sumir eru grjótharðir en það er enginn mælikvarði á þetta heldur. Ef einhver ætlar að vera heilagur í þessu þá getur þú alltaf spurt hann: Jæja, af hverju ertu þá að hlusta á þennan?“ segir hann og bendir á þá staðreynd að enginn er algóður og erfitt að draga línuna í sandinn.

Hann segir umræðuna sem slíka þó senda ákveðin skilaboð. „Það er mikilvægast að listamennirnir finni að það sem þú gerir hafi afleiðingar. Það er hallærislegt að segja að maður ætli að fara að ala fólk upp en ég held að karlmenn sérstaklega séu að komast að því að það sem þú komst upp með fyrir 50 árum sé bara ekki í boði lengur. Svo er þetta náttúrlega stundum bara hrein glæpamennska.“

Málþing Siðmenntar fer fram í húsakynnum Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -