Stjórnarfrumvarp um niðurfellingu tolla á vörur sem upprunnar eru í Úkraínu var samþykkt á Alþingi í gær. Í umsögnum um frumvarpið var að finna umsögn frá Bændasamtökum Íslands.
„Í ljósi erfiðrar stöðu í íslenskum landbúnaði sökum gríðarlegra hækkana á aðföngum hafa samtökin eðlilega áhyggjur af því hvaða áhrif innflutningurinn kann að hafa á félagsmenn.“
Þar segjast samtökin meta það svo að lausn á vanda Úkraínu sé falin í því að bundinn verði endir á stríðsátökin sem þar geisa. Karen Kjartansdóttir, almannatengill benti á umsögnina á twitter síðu sinni.
Karen segir, að henni hafi ekki fundist greining Bændasamtakanna, á vanda Úkraínu hafa fengið næga athygli. Greiningin sem birtist, að hennar sögn, óvænt í umsögn samtakanna við frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, fjallar um að fella niður tolla af vörum frá Úkraínu.
1/3 Mér fannst þessi greining Bændasamtakanna á vanda Úkraínu, sem óvænt birtist í umsögn samtakanna við frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, um að fella niður tolla af vörum frá Úkraínu, ekki fá næga athygli í vikunni. pic.twitter.com/Uus7SqKLJL
— Karen Kjartansdottir (@karenkjartansd) June 15, 2022
„Þá er það afstaða Bændasamtaka Íslanda að lausn á vanda Úkraínu felist í því að bundinn verði endir á stríðsátökin sem þar geisa. Ísland eigi því að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að gert verði vopnahlé eða með öðrum hætti bundinn endi á stríðsátökin,“ segir í umsögn Bændasamtakanna.
Samtökin segjast vera tilbúin að koma að málinu og hjálpa til við að enda stríðið:
„Verði þess óskað eru fulltrúar samtakanna reiðubúnir til frekari aðkomu að máli þessu til frekari umræðu og skoðanaskipta.“
Bændasamtökin taka undir varnarorðin í greinargerð frumvarpsins um að ef það verði samþykkt, líkt og gerðist, þá geti það leitt til þess að fluttar yrðu til Íslands landbúnaðarvörur frá Úkraínu í meira mæli en nú. Samkvæmt samtökunum gæti það haft neikvæð áhrif á verð og framboð íslenskra landbúnaðarvara.