Spjallvinur Guðna – Guðni Halldórsson, formaður LH: „Gríðarlega bjartsýnn á framtíð hestamennsku“

top augl

„Þetta hefur frestast út af Covid og við vonum að þetta verði risaíþróttaviðburður, samkoma, mannamót og sveitaball,“ segir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, í viðtali við Guðna Ágústsson þar sem þeir fara um víðan völl. Risaviðburðurinn sem um ræðir er Landsmót hestamanna, sem haldið verður á Rangárbökkum á Hellu 3.–10. júlí.

Þetta er stærsta ræktunarhátíð landbúnaðarins á Íslandi.

Þetta verður allt sem hestamennskan rúmar.

„Algjörlega, þarna leiða menn saman sína stærstu og bestu ræktunargripi og þarna verður líka keppt í gæðingakeppni, kappreiðum – sem er auðvitað elsta íþrótt okkar Íslendinga vil ég meina – skeiðkappreiðar – og ætti að vera þjóðaríþrótt – og þarna verður líka keppt í íþróttagreinum; tölti, slagtaumatölti og gæðingaskeiði: Þetta verður allt sem hestamennskan rúmar. Þarna verða börn, unglingar, ungmenni, stóðhestar, mikil hátíðahöld og glæsileg hópreið sem verður vonandi sú fjölmennasta hingað til. Þannig að þetta verður gríðarlega mikið fyrir augað og eyrað.“

 

Sveitamaður upp að vissu marki

Hver er Guðni Halldórsson?

„Guðni Halldórsson er sveitadrengur vestan af Mýrum. Bóndasonur. Ólst þar upp á stóru kúabúi á þess tíma mælikvarða, Þverholtum á Mýrum, þar sem foreldrar mínir voru með kúabúskap.“

Guðni segir að þeir bræðurnir hafi verið með ólæknandi hestabakteríu en þeir fluttu vestur þegar Guðni var níu ára og bróðir hans fimm ára. Bróðirinn er Gunnar Halldórsson, járningamaður og tamningamaður, sem býr enn þá á Mýrunum.

Vorum að djöflast í þessu af einhverri þrjósku og óbilandi áhuga.

„Við fengum gamlan bragga hjá foreldrum okkar sem hafði verið notaður undir hey og innréttuðum hann með frumstæðum hætti. Við vorum þar með bása og byrjuðum að temja trippi þegar þau höfðu aldur til og vorum að djöflast í þessu af einhverri þrjósku og óbilandi áhuga,“ segir Guðni en hann talar um velvild fólks í sveitinni í garð þeirra bræðra.

Guðni fór síðar í Fjölbrautaskólann við Ármúla en hann valdi þann skóla þar sem þar var starfræktur hestaklúbbur og að hans sögn var skólinn sá fyrsti sem gaf einingar fyrir hestamennsku. „Þá vorum við á námskeiði uppi í Víðidal og vorum á járninganámskeiði þar sem við lærðum járningar og á reiðnámskeiðum.“ Guðni fór síðar í matreiðslunám og eftir það í lögfræði á Bifröst en hann starfar við lögmennsku í dag. „Ég starfa við fyrirtækjaráðgjöf; kaup og sölu á fyrirtækjum.“

Eiginkona Guðna er Kristjana Þórarinsdóttir sálfræðingur. „Við erum eiginlega öllum stundum í hesthúsinu; við búum uppi á Skrauthólum á Kjalarnesi; sveitasælunni sem er algjörlega frábært og getum haft hestana fyrir utan gluggann og farið í reiðtúr á kvöldin. Svo eigum við hesthús í Mosó og það er frábær aðstaða þar. Getum riðið út. Og það er hægt að vera þar öllum stundum líka.“

Maður getur starfað við sitt fag en verið sveitamaður upp að vissu marki.

Guðni segir að þau hjónin eigi samtals fjögur börn, 20 hross, tvo hunda, fjóra ketti og 20 hænur.

„Maður getur starfað við sitt fag en verið sveitamaður upp að vissu marki. Kjalarnes er ekki nema 25 mínútur frá vinnustaðnum. Það er ekkert stórkostlegt vandamál.“

 

Endurskoðun og uppstokkun

Síðan leiddist Guðni inn í félagsmál.

„Einhvern tímann í gamla daga hafði ég verið í stjórn Íþróttadómarafélagsins og hestamannafélagsins í Borgarfirði og eitthvað svona en síðan hafði ég lítið haft mig í frammi í félagsmálum þangað til að eitt kvöldið var hringt í mig frá Félagi hrossabænda og spurt hvort ég vildi verða fulltrúi þeirra í landsliðsnefnd landssambandsins. Mér fannst það auðvitað heiður og upphefð og eftir að hafa rætt það við mína konu þá tók ég það að mér.

Ég tók þetta alvarlega og lagði mikið af mörkum og mikinn tíma og orku.

Ég fór strax að láta mjög mikið til mín taka í því og við fórum í gagngera endurskoðun og uppstokkun á landsliðsstarfinu. Við tókum þetta bara alveg frá a til ö með það fyrir augum að auka starfið og fagmennskuna og reyna að ná meiri árangri á öllum sviðum. Það tókst gríðarlega vel og var ofboðslega spennandi og skemmtilegt. Það var mikið starf og ég tók þetta alvarlega og lagði mikið af mörkum og mikinn tíma og orku.

Svo gerðist það að Lárus (Ástmarsson), sem var formaður landssambandsins, ákvað að stíga til hliðar úr þessu hlutverki eftir að hafa verið í sex ár. Menn fóru að koma að máli við mig og spurðu hvort ég hefði áhuga á að stíga inn og bjóða mig fram í þetta sem ég og gerði. Ég brenn fyrir þessu starfi og brenn fyrir hestamennskunni og vil gera það sem ég get til þess að  bæta hana á öllum sviðum.“

 

Fjórða stærst

Guðni Halldórsson segir að ekki átti sig allir á því að Landssamband hestamannafélaga sé fjórða stærsta sérsambandið innan ÍSÍ. „Það er fótboltinn og golfið, svo eru það fimleikarnir og svo erum við rétt þar á eftir. Við erum töluvert fjölmennari og stærri heldur en handbolti og körfubolti og margar aðrar greinar þannig að við eigum að bera höfuðið hátt og berum höfuðið hátt og lítum stórt á okkur og viljum taka til okkar rými.“

Talið berst að reiðhöllum og Guði Ágústsson nefnir stórar hugsjónir varðandi mikla höll, nýja og öðruvísi.

Núna þurfum við að fara að sjá yfirbyggðan keppnisvöll í fullri stærð.

„Það er gríðarlega spennandi verkefni og ég held að það sé næsta skref ofan á þessar reiðhallir sem eru búnar að rísa og voru bylting á sínum tíma fyrir 20-30 árum. Núna þurfum við að fara að sjá yfirbyggðan keppnisvöll í fullri stærð þar sem menn geta farið að keppa. Þó menn hafi verið að keppa í þessum reiðhöllum þá er ekki sama að jafna að vera á fullbyggðum velli innanhúss sem þetta myndi skapa auk þess sem það myndi gjörbreyta öllu starfi, kennslu, þjálfun, fatlaðra starfi og æskulýðsstarfi; þannig að þetta er ofboðslega spennandi framkvæmd en það eru einkaaðilar sem fara fyrir þessu og auðvitað eru Fákur og landssambandið þessu mjög velviljuð. Ég er sannfærður um að þetta verkefni eigi eftir að verða að veruleika.“

 

Gríðarleg eftirspurn

Svo berast Hólar í tal. Þar er nýr rektor að taka við, Hólmfríður Sveinsdóttir, og þar útskrifast árlega magnaðir hestafræðingar.

„Já, það er náttúrlega alger bylting að vera með hestaskóla þar sem kemur á hverju einasta ári fjöldinn allur af gríðarlega vel menntuðu ungu fólki sem starfar bæði hér heima og erlendis og tekur þetta tamninga- og kennslustarf áfram og lengra. Og eftirspurnin eftir góðu tamningafólki hefur verið gríðarleg.

Í hestamennskunni er í raun skortur á hrossum, hesthúsum, hestakerrum og hnökkum.

Það mætti útskrifa fleiri því það er skortur á tamningafólki og reiðkennurum og í hestamennskunni er í raun skortur á hrossum, hesthúsum, hestakerrum og hnökkum. Menn hafa varla undan því það er svo mikill áhugi á hestamennskunni sem er auðvitað frábært.“

Guðni er bjartsýnn á framtíðina. „Þau eru auðvitað mörg verkefnin og margt sem má bæta í og keyra fastar á en heilt yfir en engin ástæða til annars en að vera gríðarlega bjartsýnn á framtíð hestamennsku. Þetta er svo stórkostlegt sport. Þetta er íþrótt sem sameinar alla fjölskylduna. Þetta sameinar útiveru, ferðalög, fólk getur verið að keppa, þjálfað sig alveg upp á heimsmælikvarða og allt þar á milli.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni