Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

María Sigríður Jónsdóttir listakona: „Ég var bara á sjálfstýringu til að komast í gegnum dagana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég mála mikið blóm og fugla og set viðfangsefnið stundum í óvenjulegar aðstæður; myndirnar eru svolítið draumkenndar og óraunverulegar. Mér finnst mikilvægt að verkin mín gleðji og hafi góð áhrif á áhorfandann,“ segir María Sigríður Jónsdóttir listamaður sem býr á Ítalíu.

María Sigríður Jónsdóttir

Hún fæddist og ólst upp á Akureyri. Fjölskyldan er stór og hún segist hafa átt yndislega æsku. „Mér finnst eins og áhuginn á myndlist hafi bara verið eins og eðlilegur partur af lífinu því í fjölskyldunni er mikið um handverks- og listafólk og það hefur örugglega haft áhrif á að ég valdi mér þessa braut.“ Þess má geta að Margrét Jónsdóttir leirlistakona er systir Maríu sem og Þórdís Jónsdóttir sem hefur í mörg ár hannað og handsaumað púða sem eru listaverk.

María Sigríður Jónsdóttir

Mér fannst eins og ég væri ekki nógu flink.

„Svo man ég eftir að hafa farið sem lítil stelpa með pabba og mömmu á myndlistarsýningar, en ég man líka að myndirnar voru svolítið hátt uppi á veggjunum fyrir mig, litla stelpuna. Ég teiknaði og föndraði mikið sem stelpa og það var alltaf verið að skapa eitthvað á heimilinu. Svo fannst mér ákaflega skemmtilegt að fá að vera í teikniherberginu hans pabba, Jóns Geirs Ásgeirssonar tæknifræðings, sem teiknaði fjölmörg hús á Akureyri og ég fékk að nota teikniborðið hans, pennana, blöðin og allar græjurnar hans, og ég hannaði hús og heimili af miklum móð. Svo voru stundum haldnar „myndlistarsýningar“ á ganginum heima þegar við vinkonurnar vorum búnar að dunda okkur við að teikna og lita og skapa okkar eigin heim. Ég fór ekki í myndlistarskóla þegar ég var stelpa því ég hreinlega þorði það ekki; mér fannst eins og ég væri ekki nógu flink og gæti ekki gert það sem ætti að gera og auðvitað finnst mér það bara spaugilegt núna. En ég endaði samt á námskeiðum í myndlistarskólanum þegar ég varð eldri og það var vissulega gaman og gefandi.“

María Sigríður Jónsdóttir

- Auglýsing -

 

Annar heimur

María lærði hárskeraiðn, en í henni blundaði áhugi á að fara í listaskóla og ekki dvínaði áhuginn eftir að hún fór fyrst til Ítalíu árið 1990, þegar hún var 21 árs.

- Auglýsing -

„Ég hélt að ég mundi búa á Akureyri og eignast þar fjölskyldu, en innst inni langaði mig að fara og sjá heiminn, ferðast og kynnast nýjum löndum og nýrri menningu þannig að ég lét slag standa þegar vinkona mín hringdi í mig og spurði hvort ég væri ekki til í að koma með henni til Flórens á Ítalíu.“

En að búa í Flórens er eins og að búa á listasafni.

Það var vendipunktur í lífi Maríu, en í Flórens stundaði hún síðar myndlistarnám við Ríkisakademíuna sem hún segir að hafi verið skemmtilegt og lærdómsríkt. „Stundum fannst mér mig þó vanta aðeins meiri stuðning og kraft frá kennurunum. Nemendur hafa mikið frelsi og það getur verið bæði jákvætt og neikvætt. En að búa í Flórens er eins og að búa á listasafni; það eru listaverk úti um allt og ég man alltaf að listasögukennarinn minn sagði okkur að vera dugleg að horfa upp þegar við værum úti og á söfnum, því listaverkin væru nú ekki bara í augnhæð og það var svo sannarlega rétt hjá henni.“

María Sigríður Jónsdóttir

María útskrifaðist frá Ríkisakademíunni í borginni sem er eins og eitt stórt listaverk og hefur síðan unnið að listinni á Ítalíu.

Hvað með stílinn í verkum Maríu?

„Ég mundi segja að það að hafa lært í Ríkisakademíunni í Flórens og að hafa búið í Flórens, vöggu endurreisnarinnar, í tæp átta ár hafi haft áhrif á stíl minn og vinnubrögð. En ég man líka að í skólanum fannst kennurunum mínum þeir sjá greinilega áhrif frá Íslandi í litavali og birtu í verkunum mínum.“

Það var heillandi tilhugsun að fá að tilheyra þessum heimi.

María segir að henni finnist myndlistin vera annar heimur: „Ævintýri og sögur sem tala til manns og spila á tilfinningaskalann. Það var heillandi tilhugsun að fá að tilheyra þessum heimi, fá að taka þátt og geta gefið af sér með mínum „sögum“ og mínum litum.“

Hún segir að hugmyndir að verkunum geti komið víða að. „Draumar, náttúran, ljóð, lestur bóka, hugleiðsla eða jafnvel setning í lagi. Umhverfið yfirleitt getur líka allt í einu komið á óvart og út frá því fæðist málverk eða hugmynd að verki. Ferðalög hafa líka mikil áhrif, en á ferðalögum og nýjum stöðum fæ ég oft innblástur og maður opnar augun fyrir nýjum hugmyndum.“

María Sigríður Jónsdóttir

Hvað með litavalið í verkunum?

„Litavalið í verkunum mínum hefur aðeins breyst upp á síðkastið; ég er aftur farin að mála í sterkari litum og akkúrat núna finnst mér það henta mér. En svo er það reyndar bara dagsformið og hugmyndirnar að verkunum sem svo að lokum ráða litavali.“

Maður veltir fyrir sér hvað það þýði að vera að gera listaverk á eftir öllum þessum snillingum sem uppi voru.

María segir að það sé ekki mjög auðvelt að vera listamaður á Ítalíu. „Þeir listamenn sem ég heyri í hér eru margir á sama máli; þeim finnst erfitt að selja verkin sín og komast inn í gallerý. Stundum finnst mér öll þessi stórkostlegu listaverk yfirþyrmandi, á öllum söfnunum og hverju götuhorni, og maður veltir fyrir sér hvað það þýði að vera að gera listaverk á eftir öllum þessum snillingum sem uppi voru. En sem betur fer gleymi ég þessum hugsunum fljótt og held ótrauð áfram að skapa mín eigin verk með hug og hjarta að leiðarvopni.“

María Sigríður Jónsdóttir

Flutningar fram undan

María kynntist fyrrverandi sambýlismanni sínum og barnsföður þegar hún kom í annað skipti til Ítalíu þegar hún var 22 ára ára gömul. „Við eignuðumst son sem heitir Daníel Alpi og hann er að verða 22 ára. Hann býr núna á Akureyri, vinnur á leikskóla og er í tónlistinni á fullu, tónlistarskóla og í hljómsveit.

Í fyrra kynntist ég nýjum manni.

Í byrjun árs 2020 skildi leiðir okkar Lorenzo. Í fyrra kynntist ég nýjum manni, Stefano Pratesi, sem er ferðafélagi minn í lífinu núna. Hann er skóhönnuður og býr í grennd við Siena og Arezzo á dásamlegum stað sem heitir Rapale.“

María Sigríður Jónsdóttir

María býr enn á heimilinu sem hún bjó á með sínum fyrrverandi og Daníel Alpi, sem er í bænum Figline og húsið stendur við torgið í bænum og við hliðina á kirkjunni við torgið Piazza dei Partigiani. „Þar hef ég búið í rúm tuttugu ár, en núna er að hefjast nýtt tímabil í lífinu og ég mun flytja á nýjan stað á Ítalíu. Ég hef augastað á húsi í bæ sem heitir Sinalunga; það er í gamla hluta bæjarins sem stendur hátt uppi á hæð með útsýni yfir holt og hæðir. Þar langar mig að búa mér til nýtt heimili, nýja vinnustofu og leigja út íbúð fyrir ferðamenn. Svæðið þar allt í kring er einstaklega fallegt og hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Þaðan er stutt á svo marga fallega staði, svo sem Siena, Arezzo, Perugia og Lago Trasimeno, svo ég tali nú ekki um sveitina fögru sem heillar mig alveg upp úr skónum.“

María Sigríður Jónsdóttir

María segir að hana hafi lengi dreymt um að geta átt íbúð bæði á Akureyri og á Ítalíu. „Sá draumur hefur ekki enn ræst, en ég er nú ekki búin að gefa hann upp á bátinn því ræturnar liggja á Íslandi og þar er mín stórfjölskylda og mikið af góðum vinum. Ég hef alltaf reynt að koma minnst tvisvar á ári heim til Íslands. Þegar Daníel var lítill dvöldum við oft í tvo og stundum næstum þrjá mánuði á Akureyri því mér fannst mjög mikilvægt að hann fengi að kynnast Íslandi og fjölskyldunni þar líka. Hann lærði líka að tala íslensku enn betur með því að koma og dvelja á Akureyri.“

María Sigríður Jónsdóttir

Óendanlega vondur og sár

Lífið getur stundum verið eins og málverk á striga þar sem eru bæði bjartir og dökkir litir.

Gleði og sorg.

Hvaða lífsreynsla hefur mótað Maríu mest – hana sem er móðir og fráskilin kona?

„Ég mundi segja að fæðing Daníels, sonar míns, sé nú ein miklvægasta lífsreynsla ævinnar. Það að verða móðir breytir öllu. Áherslurnar í lífinu breytast og fókusinn beinist meira að annarri manneskju sem þú elskar skilyrðislaust. Um tvítugt ákvað ég að fara til Ítalíu, prófa að búa annars staðar, en ég ílengdist nú ansi mikið og hér er ég enn. Að búa í öðru landi mótar mann vissulega og víkkar sjóndeildarhringinn, kennir manni nýja siði og nýjar venjur.“

Mér fannst ákaflega erfitt þegar móðir mín var greind með alzheimer.

María segist vilja fyrst þakka alheiminum fyrir hve heppin hún hefur verið í lífinu og nefnir að hún eigi yndislegan son og dásamlega fjölskyldu og vini.

„Mér fannst ákaflega erfitt þegar móðir mín var greind með Alzheimer, en ég er samt þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana svona lengi þó að „kveðjustundin“ taki í hennar tilviki mörg ár.

María Sigríður Jónsdóttir

 

Hann var allavega í mínu tilviki óendanlega vondur og sár á meðan á honum stóð og í langan tíma á eftir.

Svo tók líf mitt og fjölskyldunnar minnar óþægilega U-beygju árið 2019 þegar ég skildi og ég hef verið að vinna í því síðan og er enn að koma mér á réttan kjöl. Á þessum tímamótum í lífinu, þegar ég og eiginmaður minn skildum, kom sannarlega í ljós hversu dásamleg fjölskylda mín er og vinir, bæði á Íslandi og á Ítalíu. Ég var umvafin kærleika og ást. Ég hef reynt að takast á við veikindi móður minnar af æðruleysi því þrátt fyrir allt er svo mikið að þakka fyrir í lífinu. Og skilnaður við maka; jú, hann var allavega í mínu tilviki óendanlega vondur og sár á meðan á honum stóð og í langan tíma á eftir, en svo rís maður upp og gleðin og lífskrafturinn kemur aftur sterkari en áður.

Á meðan ég var í sem mestum sárum þá gagnaðist mér ekki neitt af því.

Ég reyndi að einbeita mér í jóga og andlegum fræðum, en á meðan ég var í sem mestum sárum þá gagnaðist mér ekki neitt af því; mér gagnaðist kærleikurinn frá fólkinu mínu og vinum og að hreyfa mig. Líkamleg hreyfing er mikilvæg þegar eitthvað bjátar á, hlusta á fallega tónlist og geta sofið, en það er mjög mikilvægt þegar eitthvað bjátar á í lífinu. En ég reyni samt að muna eftir því að þakka fyrir á hverjum degi hvað ég hef verið heppin hingað til, því margir eru að fást við svo erfið og stór verkefni.“

María Sigríður Jónsdóttir

Tilfinningar sem voru mjög snúnar og erfiðar, þungar og myrkar.

Andleg líðan hefur áhrif á áherslurnar á striganum. „Líðan mín hefur sannarlega áhrif á hvernig mér gengur að vinna að minni list. Þegar ég stóð frammi fyrir skilnaðinum fyrir rúmum tveimur árum þá gat ég lítið unnið. Ég gat ekki látið tilfinningarnar í ljós á striganum; tilfinningar sem voru mjög snúnar og erfiðar, þungar og myrkar. Ég sá ekki framtíðina í skýru ljósi. Ég var bara á sjálfstýringu til að komast í gegnum dagana. En svo birtir alltaf upp um síðir og ég fór að læðast að striganum og litunum og ég held að einmitt núna sé ýmislegt að komast til skila í verkunum; alls ekki erfiðar tilfinningar heldur er það ákveðin upplifun sem hefur breytt mér og þroskað sem listamann.“

María Sigríður Jónsdóttir

Smáu hlutirnir

Hvað með lífsstíl og áhugamál listamannsins sem töfrar fram listaverk sem minna svolítið á listaverk ítölsku endurreisnarmeistaranna þar sem jafnvel lóan kíkir á strigann?

„Lífsstíllinn hjá mér er frekar einfaldur. Ég reyni að huga að andlegri og líkamlegri heilsu en ég þarf samt að hafa fjölbreytni í lífinu því það verður að vera gaman. Ég hef mikil samskipti við fjölskylduna mína á Íslandi, því það er mér lífsnauðsynlegt og svo reyni ég að ferðast þegar þess er kostur. Eftir að ég flutti til Ítalíu fór ég auðvitað að elska góðan mat og gott vín og ég nýt þess að fara út að borða með góðum vinum, en mér finnst líka gaman að elda sjálf. Allt góða hráefnið hér gerir það að verkum að það er skemmtilegt að elda. Ég þarf alltaf að fá minn „heilaga“ cappuccino á morgnana og kíkja aðeins á netið til að fylgjast með heimsmálunum og síðan tekur við vinna á vinnustofunni minni sem er við hliðina á húsinu mínu; reyndar er innangengt í hana úr húsinu svo það er stutt að fara á töfflunum í vinnuna. Dagarnir eru mismunandi. Stundum gengur mér best að vinna snemma dags, en suma daga er ég einbeittust á kvöldin. Það er dýrmætt að geta ráðið sínum vinnutíma sjálf, en oft ræður líka málverkið og olían framgöngu mála og vinnutíma.

María Sigríður Jónsdóttir

Myndlist, tónlist og listir yfirleitt eru auðvitað mín áhugamál.

Áhugamálin mín eru af ýmsum toga, en það tengist samt mikið inn á listina. Við fjölskyldan áttum reyndar hesta þegar ég var stelpa og ég elskaði að umgangast hestana og fara í reiðtúra. Mig dreymdi oft um að eiga hest hér á Ítalíu, en það var svona einn af mínum flippuðu draumum sem hafa ekki ræst. Ég lærði að spila á þverflautu þegar ég var stelpa og ákvað svo fyrir nokkrum árum að byrja að spila aftur bara fyrir sjálfa mig og ánægjuna af því og ég reyni að spila eins oft og ég get og þegar ég hef tíma. Myndlist, tónlist og listir yfirleitt eru auðvitað mín áhugamál sem og falleg húsakynni og hönnun. Svo er það náttúran og móðir jörð og samskipti við hana. Ég hef áhuga á að leita eftir smáu hlutunum og horfa á þá. Þegar ég er í fjallgöngum eða bara úti í náttúrunni er ég oft með nefið ofan í jörðinni að skoða það sem fyrir augu ber; það er svo margt fallegt í þessu smáa. Jóga, andleg mál og skemmtileg samskipti við aðra myndi ég líka flokka sem mín áhugamál sem og að dansa, fara út að borða og eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum.“

María Sigríður Jónsdóttir

 

Allir litir heimsins

Hvað með draumana bæði hvað varðar lífið og myndlistina?

„Draumarnir eru margir og ég veit að oft er best að láta ekki nokkurn mann vita hvað kemur upp í huga mér, því margt af því er nefnilega svo óraunhæft og fólk gæti bara orðið hrætt. En ég vil leyfa mér að láta mig dreyma, því annars væri lífið svo leiðinlegt og grátt. Suma drauma tekst manni að láta rætast, en suma geymir maður bara sem góðan vin í „draumalandinu“.

María Sigríður Jónsdóttir

Þar sem ég stend á stórum tímamótum í lífi mínu og er orðin eldri, þá eru draumarnir kannski aðeins jarðbundnari; svo sem draumur um að vera við góða heilsu, vera hamingjusöm, geta gefið af mér til umhverfisins og samferðafólks míns og geta hlegið og brosað sem mest, því það eru mikil auðæfi. Varðandi list mína, þá dreymir mig núna um nýju vinnustofuna mína, að geta sinnt listinni af heilum hug og verið henni samferða sem lengst. Það er ekki sjálfgefið að geta verið listamaður og geta haft af því lifibrauð. En í „nýju lífi“ mun ég gera allt sem ég get til að geta haldið áfram að mála og geta glatt aðra og njóta þess að mála alla liti heimsins á strigann sem ég stend frammi fyrir í vinnustofunni.“

En hins vegar gæti verið að í undimeðvitundinni hafi þessir draumar haft áhrif á sum verka minna.

Hefur listamanninum sem lærði í Ríkisakademíunni í Flórens dreymt listverk?

„Já, mig hefur sannarlega dreymt listaverk, en satt best að segja þá voru þau svo stórkostleg í draumunum að ég fann þegar ég vaknaði að þau væru algjörlega annars heims og ég væri ekki að fara að mála þau. En hins vegar gæti verið að í undimeðvitundinni hafi þessir draumar haft áhrif á sum verka minna og fundið sér leið í gegnum draumana beint á strigann.“

María Sigríður Jónsdóttir

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um list Maríu.

https://www.facebook.com/msjart/

mariasj_art

[email protected]

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -