Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Sterk vinátta dauðvona stúlku og íslensks hests: „Hann fylgir henni hvert sem hún fer“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Joan var sautján ára gömul stúlka búsett í Danmörku, sem hafði ekki verið spáð langlífi. Það sem reyndist henni dýrmætast af öllu voru tengsl sem hún myndaði við hesta, sem virtust vart sjá sólina fyrir stúlkunni. Það var eins og hestarnir gæfu henni einhverja nýja lífsorku, en einstök sambönd manna og dýra hafa löngum verið þekkt, auk þeirra kraftaverka sem þau virðast stundum geta haft í för með sér.

Fjallað var um málið í Vísi, laugardaginn 5. ágúst árið 1972. Joan bjó á búgarði á Norður-Sjálandi ásamt fjölskyldu sinni; foreldrum sínum Mogens og Ebbu Petersen, og bróður sínum Bjerre, árinu eldri en Joan og þar með átján ára á þessum tíma. Fjölskyldan fluttist á búgarðinn, sem var nokkuð afskekktur, til þess að geta verið í friði með hesta sína í nálægð við náttúruna, en fjölskyldan var með fá dýr að hestunum undanskildum. Uppáhaldshestur Joan reyndist vera íslenskur hestur að nafni Hrafn, sem ansaði engum nema henni. Hrafn kom upphaflega frá Mosfellssveit.

Joan hafði áður átt hest, sem hét Lykke, en þegar sá hestur veiktist og séð varð að hann kæmi ekki til með að verða til mikilla nota framar, tók Joan sig til og safnaði fyrir öðrum,“ segir í frétt Vísis.

 

Var ekki hugað líf

Þegar fréttin er skrifuð hafði fjölskyldan búið á búgarðinum Myrehulm í 10 ár, og komið sér upp góðu hesthúsi þar. Sjö árum fyrr, þegar fjölskyldan hafði verið búsett þar í þrjú ár, var dóttirin Joan talin dauðvona. Hún var með hættulegan sjúkdóm og læknar töldu lífslíkur hennar litlar. Sjúkdómnum er í frétt Vísis lýst þannig að útgangur kirtla og svitaholur stífluðust, vegna þess að vökvinn var of þykkur. Þetta orsakaði síðan keðjuverkun ýmissa aukakvilla og gerði Joan einnig móttækilegri fyrir hinum ýmsu sjúkdómum. Því má ætla að ónæmiskerfið hafi verið veikt.

Þegar þau Mogens og Ebba töldu dóttur sína, þá í kringum tíu ára gamla, eiga skammt eftir ólifað brugðu þau á það ráð að gefa henni hestinn Lykke, til að gleðja hana. Foreldrarnir vissu sem var, að Joan væri mikið fyrir hesta.

- Auglýsing -

Og það furðulega gerðist, það var sem hesturinn veitti henni nýjan þrótt, og Joan virtist hressast að mun. Stuttu seinna var Joan gefinn annar hestur, sem heitir Tommi, en hann er gamall sirkushestur, sem ekki var lengur talinn fær um að gera listir i sirkusnum. Og stuttu síðar bættist svo Hrafn, uppáhaldshesturinn hennar í hópinn,“ segir í frétt Vísis.

Joan ásamt hestinum Tomma, sem hafði sannarlega ekki gleymt því sem hann hafði lært í sirkusnum. Mynd: skjáskot tímarit.is

 

Óhlýðni Hrafn

Líkt og áður sagði var Hrafn íslenskur hestur frá Mosfellssveit. Joan hafði hitt mann að nafni Fritz Haug í Hilleröd í Danmörku, en Fritz þessi hafði flutt íslenska hesta inn til Danmerkur og lumaði einmitt á hesti sem hann taldi að gæti átt vel við Joan.

- Auglýsing -

Hrafn var ekki hlýðinn hestur, og erfitt að eiga við hann, að minnsta kosti var það ekki á hvers manns færi að reyna að tjónka við hann. En Fritz Haug fullyrti að Joan og Hrafn ættu eftir að koma til með að verða góðir vinir, og hún fékk að fara með hann heim til reynslu. Og Fritz Haug hafði reynzt sannspár, þeim kom alveg ágætlega saman, hestinum og hinni 17 ára gömlu stúlku.

Í greininni kemur fram að enginn fékk að fara á bak Hrafni nema Joan. Hún virtist hafa eitthvað sérstakt lag á honum og einstök tenging til staðar á milli þeirra tveggja.

Það getur meira að segja verið hættulegt fyrir aðra að koma nálægt honum, en við Joan er hann eins og lamb. Hann fylgir henni hvert sem hún fer, tryggur og þolinmóður, næstum eins og hundur sem fylgir manni.

Þegar Joan á síðasta ári vann tvö verðlaun á dansk-íslenzku hestamóti, þurfti hún þó að hafa sig alla við að gæta hestsins, því að svo villtur virðist hann í raun og veru.

Og þrátt fyrir það að enn er ekki vitað hve Joan getur lifað lengi vegna sjúkdómsins, hafa hestarnir þrír veitt henni allt það bezta sem henni fannst hún geta fengið.

 

Eftir því sem blaðamaður Mannlífs kemst næst lést Joan þann 29. október árið 1986, þá 31 árs.

Mynd/skjáskot tímarit.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -