Þegar sólin er komin hátt á loft og lundin verður léttari hér á norðurhveli fara margir að velta fyrir sér að hreinsa til og gera breytingar. Ein vinsæl leið til þess er að gera útlitsbreytingar á borð við hárgreiðslur, en á sumrin vilja margir létta á makkanum, eða fara yfir í frjálslegra útlit.
„Sumarið er tími frelsis og nýs upphafs,“ segir Travis Speck, hárgreiðslumeistari á stofunni Suite Caroline í SoHo í samtali við Vogue.
Ef þig langar skyndilega til að losa þig við eitthvað af hári þínu á sumrin ertu ekki ein. Það getur verið spennandi að stytta það aðeins á þessum árstíma, þú verður einhvern veginn léttari fyrir vikið.
Samkvæmt Vogue eru hárgreiðslurnar hér fyrir neðan þær sem verða aðalmálið í sumar, fyrir þá sem vilja losa sig við nokkra sentímetra eða prófa nýtt og ferskt, stutt hár.
Úlfaklipping og „shullets“
Mullet-klipping níunda áratugarins hefur komið sterk inn að undanförnu, tvinnuð saman við ýmsa aðra stíla, til að mynda svokallaða „shaggy“ eða loðna klippingu. Úlfaklippingin svokallaða varð vinsæl á TikTok og hefur blandast saman við stílana. Á þessu öllu saman eru ýmsar útfærslur. Það er hægt að fara út í svokallað „shullet“, sem merkir mjúklegt mullet. Annar möguleiki er grafískara „high-low“-mullet. Þá er það enn styttra við andlitið en síðara að aftan og skilin eru skarpari.
Hjartaknúsara bob-klipping
Þessi er næntís alla leið. Um er að ræða stutta, lagskipta bob-klippingu sem er klippt styttri að aftan, við hálsinn, en skartar síðari lokkum að framan, sem falla í kringum kinnbeinin. Þetta er töff klipping sem er passlega létt og áreynslulaus fyrir sumarið.
Síðir sveipir
Léttar, lagskiptar, „shaggy“ klippingar verða vinsælar í sumar. Þetta er klipping með lágmarks umhirðu sem virkar lifandi og náttúruleg. Kjörin klipping fyrir einstaklinga með náttúrulega liði.
„Gamine-Pixie“
Gamine er hugtak notað yfir konu eða stelpu sem er dálítið stráksleg yfirlitum eða í stíl. Þrátt fyrir hugtakið sem Vogue notar til að lýsa greiðslunni er þetta að sjálfsögðu aldeilis kynlaus hárgreiðsla. Það hefur þó færst í aukana undanfarið að konur biðji um svokallaða „pixie“-klippingu sem minnir á leikkonurnar Zoe Kravitz eða Léu Seydoux. Töff, djörf, spennandi og kröftug.
„Bob“ sem kyssir viðbeinin
Þessi langa og lagskipta útgáfa af bob-klippingunni er áreynslulaus og falleg. Lokkarnir nema við viðbeinin og koma sérlega vel út ef liðir eru í hárinu. Þessi getur verið með eða án topps og hægt að útfæra með mismiklum styttum í hárinu. Það getur verið virkilega spennandi breyting fyrir fólk með síðara hár að fara í þessa klippingu.
Flöskuháls-toppur
Þessi toppur er mitt á milli þess að vera vaxinn niður og síður, og að vera stuttklipptur yfir ennið. Hann er með náttúrulegt, afslappað yfirbragð og styttri lokkar fara síkkandi í hliðunum og blandast svo restinni af hárinu. Þetta er sniðugt fyrir þá sem vilja prófa topp en ekki fara í eitthvað of grafískt. Hann fer líka afskaplega vel með síðu hári þar sem skilin eru ekki skörp.
„Roaring 2022“
Eins og nafnið gefur til kynna vitnar þessi klipping í hinn fjöruga þriðja áratug síðustu aldar. Stutt og grafísk, sem stuttan topp. Þetta er einhver blanda af þriðja og áttunda áratugnum. Mikið partí, mikið fjör.