Tónlistarmaðurinn Post Malone segir að hann hafi fengið sér tattú á andlitið vegna þess að hann er óöruggur.
Malone er hreinskilinn í nýju viðtali við GQ Style Magazine. Í viðtalinu sagði Malone að hann sé „ljótur andskoti“ og að hann hafi fengið sér áberandi tattú í andlitið í von um að það myndi bæta sjálfstraustið.
„Ég er ljótur andskoti,“ sagði Malone og viðurkenndi að minnimáttarkennd og óöryggi hafi lengi háð honum.
„Miðstigsskóli (e. middle school), ég grét sjálfan mig í svefn á hverjum degi. Framhaldsskóli, sama sagan,“ sagði rapparinn. Malone segir að hann hafi á tímabili leitað í áfengi til að komast yfir vanlíðanina.
Malone greindi frá því að núna væri hann að gera tilraunir í tónlist með það að markmiði að vinna úr tilfinningum sínum þar sem honum þykir annars erfitt að tala um líðan sína. „Ég get talað um hvað sem er í gegnum lögin mín. En að sitja hérna, andspænis þér, það er erfitt,“ sagði hann við blaðamann GQ.